Landgræðsluáætlun 2002-2013

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 17:40:43 (6665)

2001-04-23 17:40:43# 126. lþ. 109.24 fundur 637. mál: #A landgræðsluáætlun 2002-2013# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[17:40]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlast ekki til þess að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræði gæfu Framsfl. Hún er nú að verða þekktust sem mesti afturhaldssinni þessa þings og þjóðfélags á svo ótalmörgum sviðum, með mjög lítinn skilning á atvinnulífi samtímans og möguleikum íslenskrar þjóðar, og horfir á mjög mörgum sviðum, ég vil segja, til fornaldar hvað það varðar.

Ég sá hins vegar ástæðu til þess að minna á þetta hér við umræðuna vegna þess að það kom fram í máli flokkssystur hv. þm. að vara við stórhuga framkvæmdum sem auðvitað er alltaf spurning um hvernig á að fara í.

Það má kalla þá stóriðju sem átt hefur sér stað í landinu stóriðju Framsfl. Það getur vel verið að hv. þm. telji að Framsfl. einn hafi staðið að öllum virkjunum á síðustu öld og allri stóriðju sem verið hefur í landinu. Það er hins vegar ekki rétt. Sem betur fer hefur oft verið samhugur á Alþingi Íslendinga um þessi verkefni. En ég sá ástæðu til að minna á að það er ekkert einfalt að vera Íslendingur. Það er ekkert einfalt að lifa í þessu landi. Hér þurfum við að huga til stórhuga verka og ná samstöðu um það á mörgum sviðum. Þegar Framsfl. tók við og komst í ríkisstjórn fyrir sex árum var hér atvinnuleysi upp á 6--7%. Þá voru að verða mjög lág launakjör á Íslandi. Þá var mikill landflótti. Allt hefur þetta snúist við. Ég vildi því, ekki síst af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður lyngsins, var hér stödd, að hún heyrði að ég væri stoltur af störfum flokksins.

Ég tel það samt sem áður og gat þess að það er oft vandi að ná saman um þetta mál. Það er vandi að ákveða hvar á að virkja og þar verða menn að fara af fullri gætni. Það er vandi að stofna til stóriðju. Það er líka bara vandi að vera til, hv. þm.