Landgræðsluáætlun 2002-2013

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 17:42:54 (6666)

2001-04-23 17:42:54# 126. lþ. 109.24 fundur 637. mál: #A landgræðsluáætlun 2002-2013# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[17:42]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fór nú út um holt og móa í þessu andsvari sínu varðandi afturhald þeirrar sem hér talar og þarfir mínar til að horfa til fornaldar. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra sé frægur fyrir að horfa til fornaldar í sínum ræðum og vitna í fornmenn, fornan kveðskap og fornar dyggðir Íslendinga og að hann telji sér það sjálfur til tekna að gera slíkt. Svo leyfir hann sér að hallmæla mér fyrir að ég skuli horfa til fornaldar. Sannleikurinn er auðvitað sá að maður þarf að horfa til fornaldar með sýn á framtíðina. En það er auðvitað það sem stóriðjustefna Framsfl. --- og ég endurtek það --- stóðriðjustefna Framsfl. hefur ekki sýn til framtíðar, stóriðjustefna Framsfl. sem byggir á því að nú er verið að setja saman í eina risastóra trekt 16 ár af hálendinu norðan Vatnajökuls með því að reisa 16 stíflur og eina af þeim tæplega 200 metra háa. Þetta er ekki sýn til framtíðar sem mér er að skapi, herra forseti, og ég efast um að þessi sýn sé sýn þjóðarinnar þó að þetta sé sýn Framsfl.

Og varðandi andsvarið sem ég fór upphaflega í þá verður hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir því að losun frá mengandi stóriðju á gróðurhúsalofttegundum verður aldrei bætt með lífsnauðsynlegri landgræðslu og skógrækt á Íslandi.