Smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 17:46:34 (6668)

2001-04-23 17:46:34# 126. lþ. 109.25 fundur 621. mál: #A smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[17:46]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni, till. til þál. um hertar aðgerðir á sviði smitsjúkdómavarna og aukið eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum. Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að herða þegar í stað þær sóttvarnaaðgerðir sem hægt er að grípa til vegna komu fólks frá smitsjúkdómasvæðum til landsins. Alþingi ályktar að skipuð verði samstarfsnefnd á vegum landbúnaðar-, umhverfis-, samgöngu- og dómsmálaráðherra til að gera samræmdar tillögur um hvernig megi styrkja eftirlit, úrræði og starfsaðstöðu stjórnvalda vegna innflutnings á matvöru og aðföngum sem líklegt er að geti borið smit til landsins. Nefndinni verði einnig falið að móta tillögur um virkt eftirlit með komu fólks til landsins með tilliti til smitleiða með skófatnaði og ferða fólks inn á búgarða og sýkt svæði, enda þótt ekki sé um faraldra að ræða.

Í greinargerðinni segir:

Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram í kjölfar á smitsjúkdómafaröldrum sem geisað hafa í Evrópu undanfarið. Ekki er langt síðan kúariða greindist víða í Evrópu og í Bretlandi herjar nú gin- og klaufaveiki sem er bráðsmitandi veirusjúkdómur og leggst á klaufdýr, svo sem nautgripi, sauðfé, svín og geitur. Í ráðleggingum yfirdýralæknis um smitvarnir vegna gin- og klaufaveikifaraldursins í Bretlandi kemur m.a. fram að smitefnið dreifist auðveldlega með lifandi dýrum, afurðum þeirra, fólki og fatnaði. Smithætta er því veruleg samfara heimsóknum í héruð þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp en einnig getur verið hætta á smiti í þeim héruðum þar sem sjúkdómurinn hefur ekki enn verið greindur, því að sýkt dýr skilja út sjúkdómsveiruna áður en sjúkdómseinkenni koma í ljós.

Í ljósi framangreinds telja flutningsmenn nauðsynlegt að þegar hefjist vinna við að herða varúðarráðstafanir og aðgerðir sem hægt er að grípa til þegar fólk kemur til landsins frá smitsjúkdómasvæðum. Tryggja verður að tollyfirvöld, embætti yfirdýralæknis og önnur hlutaðeigandi stjórnvöld hafi yfir nægilegum fjármunum og úrræðum að ráða til að geta gripið til nauðsynlegra aðgerða vegna framangreindrar smitsjúkdómahættu.

Jafnframt telja flutningsmenn ljóst að renna þurfi styrkari stoðum undir eftirlit með innfluttri matvöru til landsins og má þá sérstaklega nefna frosna matvöru sem inniheldur oft kjöt. Er veruleg hætta á að sýkt kjöt geti borist til landsins með slíkum matvælum. Eftirlit með frosinni matvöru virðist aðallega beinast að merkingum og innihaldslýsingum vörunnar án frekari rannsókna og athugana á hollustu og heilbrigði. Úr því þarf að bæta og styrkja eftirlit, úrræði og starfsaðstöðu stjórnvalda sem sinna innflutningi matvæla.

Enn fremur er brýnt að koma á virku eftirliti með innfluttri vöru sem getur hugsanlega borið smitefni til landsins. Þar má sérstaklega nefna dýrafóður, hvort sem það er ætlað búfé eða gæludýrum, notuð landbúnaðartæki og golfsett.

Mjög alvarlegir dýrasjúkdómar hafa geisað í mörgum Evrópulöndum í vetur og með stórauknum verksmiðjubúskap, frjálsu flæði vöru og þjónustu milli ríkja verður æ erfiðara að halda alvarlegum dýrasjúkdómum í skefjum. Í ljósi þessa og með tilliti til aukinna ferðalaga Íslendinga sem og annarra er nauðsynlegt að endurskoða sóttvarnir í almennri móttöku fólks sem kemur hingað til lands. Í tilfelli sumra sjúkdóma, svo sem gin- og klaufaveiki og hitasóttar í hrossum, geta smitefni hæglega borist með skófatnaði, með fötum fólks svo og tækjum og áhöldum eins og golfsettum. Því er mikilvægt að tekið sé tillit til þessara smitleiða og endurskoðaðar þær almennu sóttvarnareglur sem í gildi eiga að vera, óháð því fári sem herjar nú á klaufdýr víða um heim.

Herra forseti. Nokkuð er síðan þessi þáltill. var lögð fram og hún ber þess merki því að töluvert hefur verið gert til að bregðast við hugsanlegri smithættu af gin- og klaufaveiki en þær aðgerðir fóru nokkuð seint af stað. Aðgerðir hafa verið að smáherðast en þegar á reynir þarf fjármagn, það þarf stöðugildi og það þarf úrræði. Ég tel að þessi farsótt í Evrópu, gin- og klaufaveikin, hafi kennt okkur nokkra lexíu sem við þurfum að nýta okkur til framtíðar með tilliti til þess hvernig við eigum að bregðast við komi slíkt fár upp aftur og með tilliti til þess hvernig almennar varúðarreglur eiga að vera með tilliti til komu ferðamanna, íslenskra sem erlendra, með matvælum, með dýrafóðri og öðru sem ég taldi upp áðan.

Þessi þáltill. er ekki eingöngu hugsuð út frá því fári sem geisar nú heldur miklu frekar til að koma saman fulltrúum frá þeim ráðuneytum sem þurfa helst að koma að almennum vörnum eins og landbrn., yfirdýralæknisembættinu og umhvrn. með hollustuvernd, samgrn. með flugleiðir og skip og dómsmrn. með tollgæsluna og eftirlit með vörum inn í landið. Sem sagt að styrkja stöðu okkar. Allt kostar þetta fjármuni og ef við erum eingöngu að líta á einn þátt eins og komu ferðamanna til landsins þá verðum við að taka tillit til þess með fjölda tollvarða og stöðugilda hvað varðar tollskoðun ferðamanna með flugi, skipum og Norrænu. Í mínum huga held ég að tími hafi verið kominn til að fara vel yfir þessi mál.

Herra forseti. Við erum langt komin með því að samþykkja frv. til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim sem eru nr. 25/1993. Þar hefur komið fram að ekki er talin ástæða til að setja inn í þau lög eða breyta þeim nokkuð frekar en hér er verið að gera nema það mætti hugsanlega skoða 8. gr. þeirra með tilliti til komu ferðamanna til landsins. Í nál. varðandi þessa breytingu á lögum um dýrasjúkdóma segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Við umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið var talsvert rætt hvort nauðsynlegt væri að styrkja ákvæði laganna frekar með tilliti til dýrasjúkdóma sem hafa greinst í Evrópu að undanförnu, svo sem kúariðu og gin- og klaufaveiki. Nefndin hefur fengið staðfest frá landbúnaðarráðuneyti að mat þess sé að ekki þurfi að breyta lögunum sérstaklega til að hægt sé að bregðast við sjúkdómahættu eins og að framan greinir þar sem fullnægjandi heimildir eru fyrir hendi samkvæmt lögunum.``

Það sem stendur upp á okkur er þá að horfa til framtíðar og gera það sem við getum til þess varna ekki eingöngu bráðsmitandi sjúkdómum eins og gin- og klaufaveiki heldur ekkert síður sjúkdómum eins og kúariðu sem er hættulegur sjúkdómur fyrir bæði menn og skepnur. En allt kostar þetta fjármagn, þetta kostar stöðugildi ef við ætlum að vinna þetta vel, bæði hjá Hollustuvernd, yfirdýralækni og dýralæknum um landið, tollstjóraembættinu. Það þarf að vera virkt eftirlit með matvælum. Það verður að vera hægt að taka sýni og þar með að efla rannsóknir og rannsóknaraðstöðu ef við ætlum að breyta áherslum varðandi sóttvarnirnar og efla samstarf stofnana.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra að sinni, en ég held að hv. þm. og þjóðin öll skilji það eftir þá viðvörun sem við höfum fengið, bæði varðandi kúrariðuna og gin- og klaufaveikina, að við verðum að vera betur á verði og hafa virkari smitgát en við höfum haft. Við höfum rætt um sótthreinsimottur á flugstöð. Það er eitt af mörgu sem við ættum að hafa í huga við þessa endurskoðun hvort það skuli ekki bara vera viðtekin venja að við komu til landsins gangi allir ferðamenn á slíkum mottum því að sumir sjúkdómar eru þannig að þeir geta haft huliðstíma, einhvern tíma áður en sjúkdómurinn kemur fram, og er erfitt að fylgjast með því hvar fólk hefur verið og hvort hugsanlegt sé að viðkomandi beri smit til landsins.

Herra forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að þáltill. verði vísað til hv. landbn.