Smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 18:04:57 (6670)

2001-04-23 18:04:57# 126. lþ. 109.25 fundur 621. mál: #A smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum# þál., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[18:04]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi máls míns er nokkuð síðan þessi tillaga var lögð fram. Ég sagði einnig að ýmislegt hefði verið gert síðan þá. Mér var líka fullkunnugt um það sem hæstv. landbrh. kallaði herráð, þ.e. samráðsnefnd ráðuneytisstjóra þeirra ráðuneyta sem getið er um í þáltill. Eftir sem áður lagði ég þessa tillögu fram vegna þess að ég er ekki síður að hugsa til framtíðar, að við lærum af þessu mikla fári, þeirri vá sem nú dynur á í nágrannalöndum okkar, og þeirri vinnu sem er í gangi. Sem stendur er brugðist við þeim aðstæðum sem upp koma dag frá degi, en hvernig ætlum við að hafa þetta í framtíðinni? Hverju getum við breytt og hvernig getum við náð að samræma betur aðgerðir mismunandi stofnana? Hvað erum við tilbúin til að láta það kosta? Þess vegna lagði ég þessa þáltill. fram, til þess að við ynnum áfram að úrbótum en værum ekki aðeins að bjarga okkur frá degi til dags. Þessi tillaga miðar að því að bæta viðbúnað okkar og horfa til framtíðar.

Þegar ég sagði að við hefðum brugðist nokkuð seint við, þá fer það eftir því hvernig maður lítur á tímann. Ég get a.m.k. fullyrt að mér fannst seint brugðist við varðandi innflutning á írskum nautalundum, þegar hér var möguleg hætta á kúrariðusmiti með þessu kjöti. Við fengum mismunandi skilaboð um til hvaða aðgerða við gætum gripið og sannarlega var þar ekki brugðist rétt og nægilega skjótt við.