Smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 18:07:17 (6671)

2001-04-23 18:07:17# 126. lþ. 109.25 fundur 621. mál: #A smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[18:07]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er gott að hugsa til framtíðar. Í mörgum stórum málum eins og þessu getur verið hyggilegt að kalla til þverpólitíska nefnd eða menn frá öllum stjórnmálaöflum landsins til að fara yfir stöðuna og hvernig skuli meta framtíðina miðað reynsluna. Við höfum hins vegar starfandi landbn. í þinginu og við megum heldur ekki gleyma því að yfirdýralæknisembættið fer ásamt starfsmönnum sínum með miklar skyldur og verður ekki leyst undan því að meta aðstæður og hugsa til framtíðar. Ég útiloka ekkert í þeim efnum, að menn geti skoðað þessi mál þverpólitískt og farið yfir þau á nýjan leik. Þetta er stórmál sem við þurfum að huga að.

Það er ástæðulaust að blanda írskum nautalundum inn í þetta. Það getur kallað á langa umræðu. Það liggur fyrir að samkvæmt GATT-samningnum, sem við erum aðilar að, voru þær af hálfu yfirdýralæknisembættisins flokkaðar sem vara sem hingað mætti koma og taldist örugg þó að menn greindi á um það. Ég sagði þá hið fræga obbobbbobb. Það hefði betur verið sagt við innflytjandann til þess að hann uggði að sér og gæti haldið að sér höndum því að auðvitað voru þessar nautalundir frá hættulegu landi hvað dýrasmitsjúkdóma varðar.

Ég hef í sjálfu sér ekki meira um þetta við hv. þm. að segja. Við getum skoðað hvort t.d. stjórnarandstöðunni finnist að hún komi of lítið að þessum málum í gegnum landbn. eða hvort nefndir þingsins óska eftir að koma frekar að þeim með einhverjum hætti.