Smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 18:26:40 (6677)

2001-04-23 18:26:40# 126. lþ. 109.25 fundur 621. mál: #A smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[18:26]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var voðalega stutt í þræðinum hjá mér áðan en mér þótti samt rétt að taka fram, ég tók það fram við hæstv. forseta, að það ætti nánast að vera regla í íslenska þinginu að nefndirnar væru viðstaddar umræðu um þau mál sem heyra undir þær. En hv. þm. sagði í ræðu sinni áðan að ég hefði varið þá með því að þeir hefðu kynnt sér málið í þingflokkunum. Ég sagði að það væri kannski ástæðan en tók síðan fram að auðvitað ættu þeir að vera hér og það ætti að vera regla í íslenska þinginu.

Ég held að þetta sé ekki séríslenskt vandamál. Ég hygg þó að forsn. ætti í samráði við þingflokka að setja slíkar reglur, að það væri nánast skyldumæting þeirra sem viðkomandi mál heyrir undir. Ég er það mikill þingræðissinni að ég er þeirrar skoðunar en ég hef séð í þingum nálægra þjóða sem ég hef komið í að sætin þar eru stundum auð eins og hér.

Hv. þm. talar um að hafa hitt útlendinga sem hingað hafi komið með allan sinn mat. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál sem hefur komið til umræðu. Nú þurfum við að taka á þessu af miklu meiri festu. Við höfum verið í hættu hvað þetta varðar. Það er stórhættulegt þegar fólk kemur alls staðar að úr heiminum með matvæli með sér og þarna hefur verið gat í smitsjúkdómavörnum Íslands sem hefur verið mjög hættulegt. Okkur ber að taka á því, hvort sem matvælin koma með Norrænu eða ekki, þó sérstaklega verði að huga að farþegum Norrænu, og taka hart á því og eins með flugfarþega. Menn verða að virða þessa sérstöðu landsins. Það er ekki hægt að ferðast um Ísland eins og mörg önnur lönd. Við erum með búfjárstofna sem eru miklu viðkvæmari fyrir sjúkdómum en annars staðar. Við þekkjum sem betur fer ekki marga þá sjúkdóma sem víða er glímt við.

Tíma mínum er lokið og ég þakka hv. þm. ræður hennar.