Smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 18:41:07 (6681)

2001-04-23 18:41:07# 126. lþ. 109.25 fundur 621. mál: #A smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[18:41]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna afdráttarlausri yfirlýsingu hæstv. ráðherra varðandi það að ekki standi til að Ísland gerist aðili að þessum sameiginlega markaði með landbúnaðarvörur og að litið er á Evrópusambandslöndin og EES-löndin, sem hafa undirgengist þann samning, sem eitt markaðssvæði í viðskiptum við Íslendinga.

Varðandi síðan lög og reglur, af því að ég minntist á það, þá var það svo í umræðunni um innflutning á nautalundum um áramótin að hún snerist einmitt um að dregið var í efa réttmæti gildandi laga og reglugerða og tilskipana um innflutninginn. Að vísu setti hæstv. ráðherra nefnd í það mál til að fá það á hreint og eins og hæstv. ráðherra upplýsir nú þá virðast öll lög og allar reglur hafa staðist þá skoðun. Engu að síður tel ég mikilvægt, herra forseti, að það sé alveg skýrt hvaða reglur gilda.

Ég vil geta þess að ég kom erlendis frá fyrir viku og flaug einmitt frá löndum þar sem hefur verið staðfest veiki í sem við viljum ekki fá til landsins en ég varð ekki var við neinar sótthreinsimottur á Keflavíkurflugvelli. Vel má vel vera að þær hafi verið einhvers staðar í hliðarherbergjum en þær voru þarna hvergi sjáanlegar.

Varðandi vinnuvélarnar, herra forseti, er rétt að benda á að allar þær gríðarlegu þungavinnuvélar sem koma nánast allar á kaupleigu til landsins, og eru notaðar í vegagerð, í virkjanagerð eða í slíkum stórframkvæmdum er gjarnan búið að nota í hinum ýmsu löndum í kringum okkur þegar þær koma hingað og það var einmitt það sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir var að vitna til í umræðunni.