Umræða í sjávarútvegsnefnd um brottkast

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 13:33:39 (6684)

2001-04-24 13:33:39# 126. lþ. 110.91 fundur 478#B umræða í sjávarútvegsnefnd um brottkast# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í marga mánuði hefur legið fyrir beiðni frá þeim sem hér stendur ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um að umræða fari fram í sjútvn. Alþingis um brottkast fisks af ýmsum tegundum sem víst er talið að varpað sé fyrir borð af fiskiskipum. Sjútvrh. ákvað þann 5. júlí sl. eða fyrir tæpum tíu mánuðum að setja af stað vinnu til þess að raunverulegt umfang brottkasts verði metið, eins og sagði í fréttatilkynningu frá sjútvrn. Einnig sagði, með leyfi forseta:

,,Sjútvrh. skipaði 24. ágúst 1999 nefnd undir forustu hv. alþm. Gunnars Birgissonar sem ætlað var það verkefni að kanna mismun á starfsaðstöðu landvinnslu og sjóvinnslu. Nefndin hefur m.a. tekið til meðferðar brottkast afla sem vandamál.``

Að höfðu samráði við sjútvrh. hefur sú nefnd samið við Gallup um gerð sérstakrar könnunar á umfangi og ástæðum brottkasts og af því segir m.a. í þessari tíu mánaða gömlu fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Herra forseti. Nú er langt liðið á þingtímann og þrátt fyrir ítrekaðar óskir um að þessi mál verði tekin til umræðu í sjútvn. og loforð þar um hefur það ekki verið gert enn þá og beðið er eftir upplýsingum úr áðurnefndri könnun. Vitað er að könnuninni er löngu lokið og úrvinnslu mun einnig vera lokið fyrir nokkrum vikum.

Ég vil því beina því til forseta Alþingis og sjútvrh. hvort ekki megi koma því svo fyrir að formanni sjútvn. verði gert kleift að taka þessi mál til umræðu með því að umrædd skýrsla verði afhent til nefndarmanna í sjútvn. svo málið komi þar á dagskrá. Brottkast er viðurkenndur vandi og fylgifiskur allra kvótakerfa og talið er að okkar stjórnkerfi, kvótabraskskerfið, sé enn virkara að þessu leyti. Nauðsynlegt er því að vita sem mest um galla á núverandi kvótakerfi, herra forseti. Brottkast getur haft áhrif á meðferð fjölmargra mála sem nú eru til umfjöllunar í sjútvn. Málið þolir því ekki langa bið.