Umræða í sjávarútvegsnefnd um brottkast

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 13:35:45 (6685)

2001-04-24 13:35:45# 126. lþ. 110.91 fundur 478#B umræða í sjávarútvegsnefnd um brottkast# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[13:35]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. 4. þm. Vestf., Guðjóni A. Kristjánssyni, varðandi þá nauðsyn að fram komi upplýsingar sem safnað hefur verið saman varðandi brottkast afla.

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. er mjög nauðsynlegt allra hluta vegna að þær upplýsingar berist til sjútvn. og ekki síður að þær berist inn í nefndarvinnu hjá endurskoðunarnefnd um sjávarútvegsstefnuna. Ég vil því taka undir orð hv. þm. um að nú þegar verði gengið í það mál að umrædd skýrsla og upplýsingar komist til umfjöllunar í sjútvn. og í endurskoðunarnefnd um sjávarútvegsstefnuna.

Virðulegi forseti. Það er líka áhyggjuefni, úr því að við tölum hér um störf þingsins, að í nefndum þingsins, ekki síst í sjútvn. og fleiri nefndum, liggja fjölmörg þingmannamál sem eru óafgreidd og það eru tilmæli til hæstv. forseta þingsins að hann beiti sér fyrir því með þeim ráðum sem hann hefur að þeirri vinnu verði hraðað og þau mál tekin á dagskrá, ekki síst á sviði sjávarútvegsmála, sem eru afar brýn um þessar mundir. Því vil ég taka enn og aftur undir þau orð sem viðhöfð voru hér af hv. 4. þm. Vestf., Guðjóni A. Kristjánssyni.