Umræða í sjávarútvegsnefnd um brottkast

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 13:37:31 (6686)

2001-04-24 13:37:31# 126. lþ. 110.91 fundur 478#B umræða í sjávarútvegsnefnd um brottkast# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[13:37]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um að farið er að líða býsna mikið á þingtímann. Þetta mál sem varð tilefni þess að rætt er um störf þingsins hefur verið lengi í umræðu. Í raun og veru hafa engar haldbærar aðgerðir orðið til til þess að koma í veg fyrir brottkast og veikburða tilraunir hæstv. sjútvrh. með þeim málum sem hafa farið í gegnum þingið í haust hafa ekki borið árangur fram að þessu. Ég held því miður að þess sé ekki að vænta að það gerist. Þess vegna er það mjög mikilvægt að eitthvert mál verði tekið fyrir í þinginu sem hefur áhrif á þetta, einhver virkileg áhrif á að koma í veg fyrir brottkast. Við höfum ástæðu til að halda að slík tillaga geti borið mikinn árangur sem hefur verið lögð fram hér hvað eftir annað. Hún hefur aldrei fengist afgreidd. Hún liggur m.a. í gögnum sjútvn. þingsins núna. Ég tel að full ástæða sé til að spyrja fast eftir þessu og það mun ekki vera hægt að bíða eftir þeim niðurstöðum sem eiga að koma úr þessari svokölluðu endurskoðunarnefnd um stjórn fiskveiða. Sú nefnd hefur ekki skilað af sér og mun ekki skila af sér á næstunni. Það er ekki líklegt að neitt komi frá henni áður en þingi lýkur hvað varðar svona hluti nema gefið verði grænt ljós á það nú þegar.