Umræða í sjávarútvegsnefnd um brottkast

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 13:39:18 (6687)

2001-04-24 13:39:18# 126. lþ. 110.91 fundur 478#B umræða í sjávarútvegsnefnd um brottkast# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[13:39]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég held að enginn ágreiningur sé um það í sjútvn. að mjög nauðsynlegt er að taka þessi brottkastsmál skipulega fyrir í nefndinni. Að vísu höfum við rætt þetta endrum og sinnum í vetur í tengslum við þingmál sem hafa verið lögð fram, bæði mál sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram og Alþingi hefur afgreitt, einnig í tengslum við önnur mál sem hafa legið fyrir sjútvn. og síðast núna í morgun í tengslum við mál sem hv. þm. Pétur Blöndal lagði fram og laut að þessu mikla vandamáli sem við er að glíma í sjávarútvegi okkar. Það er því ekki svo að sjútvn. hafi ekki með neinum hætti komið að því að ræða þessi mál.

Hins vegar var það fyrirhugað af hálfu nefndarinnar og um það var og er full samstaða að þessi mál verði tekin upp þar sem við fáum yfirferð um þá skoðanakönnun sem hv. 4. þm. Vestf. gerði að umtalsefni og er auðvitað mjög mikilvægt gagn inn í þessa umræðu vegna þess að upplýsingar eins og þær hafa a.m.k. ekki nýlega komið fram og því held ég að það sé mikilvægt til þess að varpa nýju ljósi á þetta mál að við getum rætt það í tengslum við upplýsingar úr skoðanakönnuninni og um það erum við alveg sammála í sjútvn.

Þau svör sem ég hef hins vegar fengið þegar ég hef leitað eftir þessu eru þau að þessi könnun liggi ekki fyrir, úrvinnslunni sé ekki lokið og því var mitt mat að það væri þá skynsamlegast að bíða átekta enn um sinn eftir að könnuninni yrði lokið þannig að við gætum rætt málið í tengslum við hana.

Ég vil enn fremur segja í tengslum við það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði að þess hefur verið rækilega gætt í störfum sjútvn. að fara yfir öll þau þingmál sem þangað hafa borist. Þau hafa öll verið send til umsagnar og við höfum með skilvirkum hætti farið yfir öll þessi mál, farið í gegnum umsagnir o.s.frv. þannig að vinna við málið, hin pólitíska undirbúningsvinna við málið í nefndinni, er ágætlega á vegi stödd.