Afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 13:54:05 (6695)

2001-04-24 13:54:05# 126. lþ. 110.95 fundur 482#B afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar# (umræður utan dagskrár), umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ísland hefur allt frá lokum Kyoto-ráðstefnunnar starfað með Bandaríkjamönnum og öðrum ríkjum, svo sem Japan, Áströlum, Kanadamönnum og Norðmönnum, í svokölluðum regnhlífarhópi. Með þátttöku okkar í þessum hópi gefst okkur gott tækifæri, betra en mörgum öðrum þjóðum, til þess að hafa áhrif á afstöðu Bandaríkjanna með þeim umræðum sem þar fara fram.

Í síðustu viku var fundur ráðherra regnhlífarhópsins í New York þar sem ég ræddi þetta mál við fulltrúa stjórnvalda í Washington, lýsti vonbrigðum mínum og áhyggjum af stöðu mála gagnvart Kyoto-bókuninni og lagði áherslu á mikilvægi þess að Bandaríkin tækju áfram þátt í því mikilvæga verkefni með öðrum þjóðum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við munum áfram beita okkur á vettvangi regnhlífarhópsins, m.a. með það fyrir augum að hafa áhrif á Bandaríkjamenn.

Lengi hefur legið fyrir mikil andstaða í bandaríska þinginu við Kyoto-bókunina og fyrrverandi forseta tókst ekki að vinna málinu fylgi þar. Nú stendur yfir endurskoðun á stefnu Bandaríkjanna í loftslagsmálum með það að markmiði að ná niðurstöðu sem líkur eru á að bandaríska þingið staðfesti. Samkvæmt nýjustu upplýsingum mun þeirri endurskoðun ljúka í lok maí en þá verða einungis sex vikur í að 6. aðildarríkjaþingið komi saman aftur í Bonn.

Jan Pronk umhverfisráðherra Hollands og forseti 6. aðildarríkjaþingsins setti skömmu fyrir páska fram nýja sáttatillögu sem ber að fagna því að hún er skref í rétta átt. Hún var rædd á ráðherrafundi í New York á laugardaginn en næsti ráðherrafundur um tillögur hans verður í tengslum við undirskrift nýs alþjóðasamnings um þrávirk lífræn efni í Stokkhólmi í lok maí.

Afstaða ríkisstjórnar Íslands til Kyoto-bókunarinnar hefur ekki breyst vegna yfirlýsinga Bandaríkjastjórnar. Við teljum mikilvægt að ríki heims taki höndum saman um að hemja losun gróðurhúsalofttegunda með sameiginlegu átaki. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að gerast aðili að Kyoto-bókuninni þegar ásættanleg niðurstaða hefur fengist varðandi útfærslu hennar gagnvart Íslandi. Eins og þingmönnum er kunnugt vinnur aðildarríkjaþing samningsins að framgangi þessa máls núna.

Varðandi það hvort íslensk stjórnvöld muni styðja viðleitni ESB til að Kyoto-bókunin verði að alþjóðalögum fyrir haustið 2002 er því til að svara að það voru mikil vonbrigði að ekki náðist niðurstaða í Haag. Markmið Haag-fundarins var að ganga frá útfærslu Kyoto-bókunarinnar þannig að ríki gætu tekið afstöðu til hennar og lagt hana fyrir þjóðþing sín til staðfestingar. Samkvæmt Kyoto-bókuninni tekur hún ekki gildi og verður að alþjóðalögum nema iðnríki sem losa 55% og yfir af heildarlosun iðnríkjanna hafi staðfest hana, eins og hér kom fram hjá hv. málshefjanda.

Enn sem komið er hefur ekkert ríki OECD staðfest hana og einungis eitt þeirra ríkja sem taka á sig skuldbindingar hafa staðfest bókunina, þ.e. Rúmenía sem hefur 1,2% losunarinnar. Þessi staða er skiljanleg þar sem ríki munu almennt ekki staðfesta bókunina fyrr en þau vita hvernig útfærslunni verður endanlega háttað. Enn vantar því á að iðnríki sem losa rúmlega 54% af losuninni staðfesti bókunina. Fyrr tekur hún ekki gildi.

Ísland mun áfram vinna að því að samstaða náist sem fyrst um útfærslu bókunarinnar, helst 2002, en við það ár hefur gjarnan verið miðað vegna þess að þá eru tíu ár liðin frá Ríó-ráðstefnunni 1992. Hins vegar er ljóst að miðað við þróun mála núna er ekki líklegt að bókunin muni taka gildi á næsta ári, þ.e. 2002. Og það er rétt að undirstrika það við þessa umræðu að viðræðurnar eru mjög flóknar. Þær snúa að fjármögnun aðgerða í þróunarríkjum, viðskipti með losunarheimildir, viðurlög við því að fara fram úr losunarheimildum, bindingu kolefnis með ræktun o.fl. Þetta eru því einar flóknustu alþjóðasamningaviðræður sem fram hafa farið yfirleitt.

Þrátt fyrir það að blikur séu nú á lofti gagnvart Kyoto-bókuninni er rétt að hafa í huga að það voru Bandaríkin sjálf sem óskuðu eftir því að framhaldi Haag-fundarins, sem átti að halda í lok maí nk., yrði frestað um tvo mánuði þannig að þeim gæfist svigrúm til þess að endurskoða stefnu sína. Því er ástæða til að ætla að þeir muni taka fullan þátt í samningaviðræðunum í júlí.