Afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 14:03:54 (6698)

2001-04-24 14:03:54# 126. lþ. 110.95 fundur 482#B afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[14:03]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Allt orkar tvímælis þá gert er og það á svo sannarlega við um athafnir eða öllu heldur athafnaleysi hæstv. ríkisstjórnar vegna Kyoto-bókunar. Það eru meinleg örlög þjóðarinnar að hér situr að völdum ríkisstjórn með svo sérkennileg viðhorf til umhverfisverndar eins og raun ber vitni hjá þessari hæstv. ríkisstjórn. Maður var farinn að gera sér vonir um að menn lærðu af mistökum en svo er ekki að sjá heldur ætlar sagan að endurtaka sig. Til að mynda ætlar enginn að læra af þeim hrakförum sem þjóðin varð fyrir vegna fiskeldis á sínum tíma þar sem tugir milljarða fóru í súginn. Nú ryðjast menn fram og ekkert nýtt í málinu nema nú óttast menn að e.t.v. verði Norður-Atlantshafslaxinn villti í hættu þess vegna.

Ég hélt kannski að menn mundu líka læra af hrakförum sem ríkisstjórnin fór vegna Eyjabakkamálsins en svo er ekki að sjá. Í viðtali á baksíðu Dagblaðsins í gær upplýsir hv. þm., sem á að vera hér í húsinu, var hér fyrir skemmstu, Einar Oddur Kristjánsson, bjargvættur þjóðarinnar á sínum tíma, nýr gullmoli Sjálfstfl. í fjárln., hann upplýsir að annar gullmoli finnist við Norðlingaöldu sem megi breyta í ódýrt rafmagn fyrir ameríska álbraskara. Ef þetta er stefna Sjálfstfl. þá uggir þann sem hér stendur að þessir tveir gullmolar muni óðar í bili breytast úr góðmálmi í mýrarrauða.