Afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 14:06:06 (6699)

2001-04-24 14:06:06# 126. lþ. 110.95 fundur 482#B afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það varpaði vissulega dimmum skugga á annars ánægjulega ráðstefnu Norðurlandaráðs um sjálfbæra þróun að Bandaríkjaforseti hafði þá dagana áður sagt Bandaríkin frá Kyoto-samkomulaginu. Nánast hver einasti þingmaður sem tók til máls lýsti vonbrigðum sínum með þessa afstöðu Bandaríkjamanna og vísaði til mikillar losunar þeirra á skaðlegum lofttegundum og þess leiðtogahlutverks sem þau ættu í rauninni að gegna í baráttunni fyrir sjálfbærri þróun vegna auðæfa og yfirburðatækniþekkingar. Það varð þó einróma niðurstaða hinna norrænu þingmanna að við létum þetta ekki raska okkar áætlun heldur héldum ótrauð áfram þá braut sem ríkisstjórnir Norðurlanda höfðu markað í hinni nýju stefnu sinni um sjálfbæra þróun, enda brýn ástæða til að taka mannlega á móti hinni ógnvænlegu þróun sem m.a. er staðfest í nýrri skýrslu alþjóðlegrar sérfræðinganefndar um loftslagsbreytingar þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að losun gróðurhúsalofttegunda verði meiri á þessari öld en áður hafði verið áætlað. Þess vegna verði höfuðáherslan lögð á það á fyrstu þremur árum þessarar norrænu áætlunar að koma markmiðum Kyoto-bókunarinnar í framkvæmd.

Þessar fyrirætlanir hafa íslensk stjórnvöld undirritað. En eitthvað finnst manni þær stangast á við þær áætlanir sem sömu stjórnvöld hafa um stórkostlega uppbyggingu mengandi stóriðju á sama tíma og framkvæmd þessarar frómu áætlunar stendur sem hæst. Er kannski meiningin að norræni kvótamarkaðurinn leysi vandann fyrir okkur eða er það svo að við göngum hnarreist erlendis og undirritum með bros á vör áætlanir um fegurra mannlíf en séum svo jafnframt hér heima að bauka við gagnstæða stefnu og vonumst til að af okkur fréttist ekki til útlanda?