Fjarskipti

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 14:54:29 (6707)

2001-04-24 14:54:29# 126. lþ. 110.17 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv. 29/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[14:54]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á lögum um fjarskipti sem var afgreitt úr samgn. til 2. umr. Ég vil taka fram að ég, sem sit ég samgn., var ekki meðflutningsmaður að því áliti sem hér er lagt fram og skilaði heldur ekki séráliti. Rökin fyrir því eru forsaga málsins sem ég ætla aðeins að víkja að og einnig þau að fyrir lá tillaga frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni um breytingu á þessu lagafrv. sem hérna var lagt fram, og var gert ráð fyrir að yrði þá endurflutt við 2. eða 3. umr. ef sú tillaga sem upprunalega var flutt af samgrh. yrði niðurstaða nefndarinnar eða önnur álíka.

Herra forseti. Forsagan er sú að 1999 voru samþykkt lög um fjarskipti þar sem fjallað var m.a. um vernd fjarskiptasendinga. Þessi lög voru að mörgu leyti þýðing eða endurvörpun á ýmsum ákvæðum evrópskra samþykkta eða evrópskra tilmæla sem talið var að Ísland með aðild sinni að Evrópska efnahagssvæðinu yrði að taka upp og hlíta og setja í sín lög.

Ljóst var við þá vinnu sem þar var unnin við frv. eins og það var lagt fram 1999 og samþykkt síðan sem lög, að sú vinna sem var að baki frv. var hvergi nægilega mikil eða góð miðað við umfang þess og miðað við öll þau atriði sem það lagafrv. tók til, eins og hefur síðan komið á daginn. Strax við samþykkt frv. var mönnum ljóst að þarna bar hugsanlega á milli annars vegar þess sem stóð í því lagafrv. sem lagt var síðan fram og samþykkt og hins vegar það sem ætla mátti eða meint að væri verið að þýða úr erlendu máli á íslensku, og að þarna mundu hafa orðið á mistök við þá vinnu.

Það leiddi síðan til þess að síðla vetrar árið 2000 var í samgn. unnið að brtt. á þessum lögum sem átti m.a. að taka til þessara mistaka sem höfðu orðið við þá lagasmíð. Þau mistök sem þarna voru sérstaklega rædd voru einmitt það ákvæði í 44. gr. laganna sem laut að hljóðritun símtala.

Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur hér gert grein fyrir hljóðar sú tillaga eða sú grein, eins og hún var samþykkt 1999, þannig, með leyfi hæstv. forseta:

,,Sá aðili að símtali sem vill hljóðrita símtalið skal í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína.``

Í umfjöllun í nefndinni þá var talið og var nefndarmönnum skýrt svo frá að þarna væri verið að þýða beint orð og tilskipanir frá Evrópusambandinu sem við yrðum síðan að fella inn í lög og það var þá tekið gott og gilt. En síðan var upplýst að sú tilskipun átti miklu frekar við og reyndar beint við hlerun, þ.e. að þriðji aðili, aðili sem ekki átti beina aðild að tveggja manna tali hefði ekki leyfi til þess að taka það símtal upp sem hann átti ekki aðild að. Þar var sem sagt verið að leggja áherslu á að hlerun væri bönnuð og hlerun er allt annað en hljóðritun símtala sem viðkomandi á sjálfur aðild að. Þannig að það eitt sér, þessi mistúlkun og misskilningur og þessi vangá réttlætti það að þetta mál væri tekið upp, enda var í fyrravetur unnin tillaga í samgn. um að þessi grein yrði felld niður.

[15:00]

Þannig lá tillagan tilbúin til flutnings af hálfu nefndarinnar. Ég lýsti því þá yfir að ég væri sammála því sjónarmiði sem þar kæmi fram þó að ýmsu væri ábótavant við lagabálkinn í heild og ég gæti ekki stutt hann sem slíkan. Ég var hins vegar sammála því sem nefndin vildi þá leggja til, þ.e. að 3. mgr. yrði felld burt. Málið var ekki afgreitt á vorþingi á árinu 2000 en var aftur tekið upp nú í haust, þá með breyttri framsetningu, þ.e. þeirri sem við nú stöndum frammi fyrir. Ég tel að samgn. hafi þar tekið óskynsamlegri kost í tillöguflutningi sínum.

Það er ekki aðeins, herra forseti, að þarna sé á ferðinni misskilningur sem orðið hefur til við yfirfærslu á tilskipunni. Það er allt annað að taka á hlerun en að taka á upptöku á tveggja manna tali. Mér finnst sú breyting sem hér er lögð til af meiri hlutanum, að ákveðnum aðilum sé heimilt að taka upp símtöl án þess að tilkynna það sérstaklega ef ætla má að viðkomandi sé kunnugt um að samtölin séu tekin upp, afskaplega veik og opin. Hvernig á sá sem talar við annan í síma að láta sér detta í hug eða vita út frá einhverjum almennum forsendum að símtalið sé tekið upp.

Látið var að því liggja að senda mætti auglýsingu í dagblöð, útvarp o.s.frv. um að viðkomandi félag eða viðkomandi fyrirtæki hefði það sem almenna reglu að hljóðrita símtöl. Það er í sjálfu sér ekki örugg leið til þess að slíkt komist til allra sem hlut eiga að máli. Hvernig á maður að vita slíkt ef það eru kannski 10, 20, 30, 100, 200, 1000 eða 100.000 aðilar sem hafa auglýst að þeir taki almennt upp viðtöl og þurfi síðan ekki að tilkynna það sérstaklega? Það er engin sérstök takmörkun á svona opinni heimild. Það getur enginn takmarkað það að ég auglýsi í Dagblaðinu eða Fréttablaðinu nýja, sem er reyndar ekki borið á öll heimili, að ég taki upp símtöl og þar með eigi allir að vita það.

Sú tilhögun sem hér er lögð til, að heimilt sé að taka upp tveggja manna tal án þess að láta vita af því sérstaklega ef ætla má að viðkomandi viti það, búist við því eða gangi út frá því að samtalið sé hljóðritað, finnst mér fáránleg. Mér finnst það fáránlegt að setja í lög svo opin geðþóttaákvæði. Þetta er dæmi, herra forseti, um hvernig Alþingi á ekki að vinna að lagasetningu. Ég verð bara að segja það hreint út. Það á ekki að færa í lög svona geðþóttaákvörðunaratriði sem hverjum og einum er síðan ætlað að skilja og túlka.

Ég tel, herra forseti, að þarna séu menn á villigötum við að yfirfæra tilskipun sem talið er að við þurfum að uppfylla, um að banna hleranir. Að fella undir það hljóðritun símtala milli tveggja aðila finnst mér algerlega rangt. Hér á að setja í lög ákvæði sem vart nokkur leið er að framfylgja. Það er mjög erfitt að ætla að fylgja því eftir að menn taki ekki upp tveggja manna tal og útilokað að fylgja því eftir.

Með svona lagasetningu finnst mér hreinlega verið að storka almennri skynsemi og almennri siðferðisvitund fólks. Menn taka auðvitað ekki upp símtöl nema í hagsmunaskyni. Við erum ekki að gera það bara til að safna símtölum. Það er ekkert sem getur hindrað viðkomandi í að taka upp þau símtöl sem hann vill án þess að tilkynna það. Það er ekki þannig að símtalið hætti um leið og hann fer að taka upp. Svona lagasetning er þess vegna hálfgerð vanvirða við almenna siðferðiskennd fólks, siðferðisvitund sem ætti fremur að ala upp í fólki en að setja lög sem eru meira eða minna út í bláinn.

Við höfum lög um persónuvernd. Við höfum önnur lög sem taka á vernd einkalífs, vernd fjölskyldu og heimilislífs. Það eru til lagaákvæði sem eiga að taka almennt á því. Þau ákvæði sem ég geri að umræðuefni hér hafa hins vegar það yfirbragð að við séum að koma á lögregluríki þar sem nánast allir, ef að er gáð, framkvæma ólöglega gjörninga. Það finnst mér vera spor aftur á bak.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta. Ég vil bara endurtaka að hér er verið að klóra yfir ákveðinn misskilning, ákveðin mistök við lagasetningu árið 1999. Samgn. var komin á miklu betra spor á liðnum vetri. Hún hafði þá tilbúna tillögu um að þetta ákvæði yrði gjörsamlega fellt burt, þ.e. um að sá aðili að símtali sem vill hljóðrita símtalið skuli í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlan sína. Mér fannst skynsamlegt að fella það niður. Það sem hér er lagt til, að bannað sé að taka upp símtöl án þess að tilkynna það fyrir fram viðmælanda sínum en ákveðinn hópur geti tekið símtal upp án þess að tilkynna það ef ætla má að viðkomandi geti gengið út frá því að það sé tekið upp, finnst mér fyrir neðan allar hellur, þ.e. svona lagasetning. Ég ítreka það að ég styð áfram það sjónarmið að þessi málsgrein 44. gr. laganna verði felld burt.