Fjarskipti

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 15:08:24 (6708)

2001-04-24 15:08:24# 126. lþ. 110.17 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv. 29/2001, LB
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Segja má að málið sem við ræðum hér, frv. til laga um breytingar á lögum um fjarskipti, hafi kallað fram óvenju mörg mál um sama efni undanfarin missiri.

Að því er varðar 3. mgr. 44. gr. laganna er ljóst að þegar frv. til heildarlaga um fjarskipti var samþykkt á sínum tíma þá gekk Alþingi of langt, lagði of mikil höft á hvað mætti hljóðrita og hvað ekki. Síðan hefur verið deilt um það í þingsal og víðar hve langt eigi að ganga til baka og hversu vandlega eigi að skilgreina hvað megi taka upp og hvað ekki.

Hér í þinginu hafa verið haldnar langar og miklar ræður um þetta mál og menn hafa gert grein fyrir viðhorfum sínum eins og komið hefur fram. Ég lagði til, ásamt hv. þm. Kristjáni L. Möller og hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, að við þessum mistökum Alþingis yrði brugðist með ákveðnum hætti, þ.e. að meginreglan yrði skýr, að bannað yrði að taka upp samtöl en undantekningarnar væru líka skýrar eins og tilgreint er á þskj. 161, 159. máli þingsins.

Ég skrifaði undir álit meiri hluta samgn. með fyrirvara. Fyrirvari minn lýtur fyrst og fremst að því að þrátt fyrir að frv. ríkisstjórnarinnar sé heldur til bóta þá er alveg ljóst að það er langt frá því að vera nægjanlega gott. Sem dæmi má nefna að í 1. mgr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Aðili þarf þó ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku samtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.``

Þessi setning vakti talsverða umræðu í hv. samgn. þar sem velt var upp spurningunni um hvenær menn vissu ótvírætt eða gerðu sér grein fyrir því að samtal væri tekið upp. Það komu engar viðhlítandi eða skynsamlegar skýringar fram um það. Því má ljóst vera að hver sem tekur það upp hjá sjálfum sér að auglýsa það að hann taki upp flest samtöl, hvort heldur það eru einstaklingar eða félög, hafi þá tryggt sér að hann geti tekið upp samtöl sín. Þá spyr maður: Hvað er þá orðið um meginregluna, að ekki megi taka upp samtöl? Það er í sjálfu sér kjarni þessarar umræðu.

Hér er ætlunin að lögfesta ákvæði sem þrátt fyrir vankanta sína er heldur til bóta frá því sem nú og þrátt fyrir að vera langt frá því að standa undir þeim kröfum sem við eigum að gera til lagasetningar á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir fyrirvara mínum við álit meiri hluta samgn. Af minni hálfu er þessari umræðu lokið.