Fjarskipti

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 15:12:24 (6709)

2001-04-24 15:12:24# 126. lþ. 110.17 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv. 29/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en ég furða mig svolítið á því að hv. framsögumaður málsins, hv. þm. Árni Johnsen, hafi horfið úr þingsal nánast um leið og hann hafði lokið máli sínu. Ég spyr hvort hann sé í húsinu til að svara einni spurningu eða tveimur sem ég vil bera fram.

(Forseti (GuðjG): Hv. þm. tilkynnti forseta, líklega fyrir um 15 mínútum, að hann þyrfti að víkja úr húsi.) (Gripið fram í: Á þá að fresta umræðunni?)

Er þá ekki rétt að fresta þessari umræðu? Við erum að tala um stjfrv. sem lagt hefur verið fram og ég óska eftir upplýsingum annaðhvort frá hæstv. samgrh. eða formanni samgn. sem talaði fyrir þessu máli. Mér finnst óeðlilegt að þessari umræðu verði fram haldið án þess að þeir geri grein fyrir máli sínu og svari spurningum sem fram eru settar við umræðuna. Annars er marklaust að vera að tjá sig um þetta mál.

Ég leyfi mér því að beina þeirri ósk til hæstv. forseta þingsins að þessu máli verði frestað þar til annaðhvort hæstv. samgrh. eða hv. formaður samgn., sem hafði framsögu um málið, koma í þingsal og svara þeim spurningum sem settar hafa verið fram við umræðuna. Ég leyfi mér að ítreka þá spurningu til hæstv. forseta þingsins.

(Forseti (GuðjG): Henni verður svarað.)

Vildi hæstv. forseti svara áður en ég geri hlé á máli mínu vegna þess að ég er að koma hér upp öðru sinni í umræðu um þetta mál. Ef þessari beiðni minni verður hafnað þá mun ég halda áfram ræðu minni um málið, ella geri ég hlé á máli mínu. Ég leyfi mér að óska eftir því við hæstv. forseta að hann geri þinginu grein fyrir því hvernig hann hyggst taka á þessari beiðni minni.

(Forseti (GuðjG): Forseti verður að sjálfsögðu við þeirri ósk að fresta umræðunni og lætur bera hæstv. samgrh. og formanni samgn. þau boð að óskað sé eftir þeim til umræðunnar. Umræðan verður þá tekin upp síðar á þessum fundi.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að verða við þessari beiðni og geri þar með hlé á ræðu minni.