Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 15:38:42 (6716)

2001-04-24 15:38:42# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ræddi þessi mál við hæstv. dómsmrh. við 1. umr. málsins og spurði hana nokkurra spurninga um markmið og tilgang þess frv. sem hún kynnti þá og er til 2. umr. eftir umfjöllun allshn.

Ef satt skal segja, og þingið mun undirstrika það, þá var ákaflega fátt um svör hjá hæstv. dómsmrh. þegar hún var um það spurð hvert markmiðið væri og hvað lægi að baki og hvort hún teldi þessa breytingu á refsiramma gagnvart fíkniefnabrotum og peningaþvætti mundu hafa áhrif á umfang þessarar glæpastarfsemi og draga úr henni sökum fælingarmáttarins. Hæstv. ráðherra hafði þau svör helst að hann vænti þess að hv. allshn. mundi væntanlega fara gaumgæfilega ofan í málið og svara ýmsum þeim álitaefnum sem ég og fleiri ræðumenn vöktum athygli á og drógum upp á yfirborðið í umræðunni.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að mér virðist hér af snubbóttu og satt að segja ákaflega innihaldsrýru nál. allshn. að nefndin hafi satt að segja ekki sinnt þessu hlutverki sínu. Í nál. meiri hlutans er allt byggt á þessari staðhæfingu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess að dómstólar hafa á síðustu árum nýtt refsimörk 173. gr. a nánast að fullu í alvarlegustu fíkniefnabrotum telur meiri hluti nefndarinnar nauðsynlegt að refsimörkin verði hækkuð og dómstólum þannig veitt frekara svigrúm til að ákveða þyngri refsingu ef til alvarlegri brota kemur.``

Herra forseti. Þetta er nákvæmlega sá tónn sem er líka sleginn í athugasemdum með frv. sem hæstv. ráðherra fór yfir við 1. umr. máls.

Herra forseti. Í umsögn dómstólaráðsins er þessari staðhæfingu einfaldlega vísað á bug. Það er ekkert öðruvísi, herra forseti, en að dómstólaráð vísar þessari staðhæfingu einfaldlega á bug. Þar segir orðrétt, herra forseti:

,,Dómstólaráð telur þó rétt að fjalla stuttlega um frumvarpið en þó einkum um þær athugasemdir í greinargerð með frumvarpinu sem lúta að dómaframkvæmd í fíkniefnamálum. Sérstakar athugasemdir eru gerðar við þau ummæli í greinargerð að með refsimati dómstóla hafi refsimörk 173. gr. a verið nýtt nánast að fullu í alvarlegustu fíkniefnabrotunum og af þeim sökum sé nauðsynlegt að hækka refsimörkin svo dómstólum verði gert kleift að ákveða þyngri refsingu ef reyna muni á enn alvarlegri brot.``

Dómstólaráð gerir sérstakar athugasemdir við þessa fullyrðingu sem er að finna í athugasemdum með frv. og endurtekur sig hér í nál.

Herra forseti. Með þessari athugasemd er botninum í raun kippt undan allri málsmeðferðinni og allri tillögugerðinni. Það er ekkert öðruvísi. Af þeim sökum einum ætti auðvitað að senda þetta mál aftur heim í hérað og vísa þessu aftur til ríkisstjórnarinnar, aftur til dómsmrn. og láta það a.m.k. reyna að vinna heimavinnuna sína áður en það kemur með mál af þessum toga aftur til Alþingis.

Ég vek athygli á því að það er dómstólaráð sem fullyrðir þetta þó það taki réttilega sérstaklega fram í umsögn sinni að almennt eigi dómarar eða stofnanir á vegum dómsvaldsins ekki að hafa áhrif á lagasetningu þegar frá er talin réttarfarslöggjöf og löggjöf sem varðar skipulag og starfshætti dómstóla. En þeir geta hins vegar ekki orða bundist sökum þeirra vinnubragða sem hæstv. dómsmrh. og nú meiri hluti hv. nefndar verður uppvís að.

Herra forseti. Það er ekki eingöngu þetta atriði sem dómstólaráð gerir alvarlegar athugasemdir við. Dómstólaráð gerir einnig alvarlegar athugasemdir við þær fullyrðingar að vegna þess að í seinni tíð hafi refsingar verið hertar fyrir brot gegn þeim alvarlegu glæpum sem fíkniefnabrotin eru megi alls ekki draga þá ályktun að dómarar vilji refsa enn harðar fyrir þessi brot og af þeim sökum verði að hækka refsihámarkið. Með öðrum orðum, dómstólaráð segir þar ekkert sem kalli eftir þessari tillögu.

Ég held áfram að vísa í umsögn dómstólaráðs sem telur sig knúið til þess að benda hinu háa Alþingi og þá einkanlega framkvæmdarvaldinu, hæstv. dómsmrh., á þá meinbugi sem er á þessum málatilbúnaði öllum, taka það sérstaklega fram að þeir eigi ekki að reyna að hafa áhrif á lagasetningu á þessum vettvangi en geta eðli máls samkvæmt ekki orða bundist.

[15:45]

Þeir benda líka á það sem hv. nefnd gerir ekkert með og hirðir ekki um að reyna að vekja máls á í þessari umræðu, hvað þá heldur í sjálfu nál., því það er dómstólaráðið sem telur ástæðu til að vekja athygli á því að afbrotafræðingar hafi t.d. bent á að þyngri refsingar geti allt eins leitt til harðari og skipulagðari brotastarfsemi, að brotamenn svífist þá einskis til að forðast að upp um þá kunni að komast eða til að komast hjá handtöku, að brotamenn vopnist, að vitnum kunni að verða ógnað og lögreglu veitt viðnám við handtökur. Og að refsiharka þurfi þannig ekki endilega að hafa í för með sér betra þjóðfélag.

Herra forseti. Ég er ekki að lýsa hér viðhorfum mínum. Þau fara að vísu mjög saman við þær áherslur sem ég lagði hér upp við 1. umr. málsins og fóru satt að segja mjög í taugarnar á hæstv. dómsmrh. á þeim tíma og hún kaus að hafa þann háttinn á að segja að nefndin mundi reyna að skjóta einhverjum rökum að þessari tillögu hennar. Nei, það er dómstólaráðið sjálft sem telur ástæðu til að vekja athygli Alþingis á þessu.

Herra forseti. Ég frábið mér það algerlega í þessari umræðu að menn komi hér með ódýrar pillur, ódýra útúrsnúninga á borð við þá að einstakir flokkar séu talsmenn hinna hörðu refsinga, séu talsmenn þess að berjast með hörku gegn þessari djöfullegu vá sem fíkniefnin eru, en hinir sem vilja aðeins íhuga og velta því fyrir sér hvaða áhrif rýmkaður refsirammi kunni að hafa á samfélagið okkar í heild og breidd, séu það ekki.

Ég frábið mér slíka umræðu sem bar dálítið á hjá hv. formanni allshn. Og ég vænti þess að það hafi verið mistök sem ekki verði endurtekin í þessari umræðu, því að ég kalla eftir því og geri kröfu um það að hún verði á faglegum grunni þrátt fyrir allt og vil trúa því að svo verði.

Herra forseti. Það er ekki bara dómstólaráðið --- ég vek athygli á því að dómstólaráðið telur sig knúið til þess að hafa jafnsterkar skoðanir á frv. þó að það sjálft sé meðvitað um að það sé á mörkunum að því beri yfirleitt að hafa skoðanir á slíku sökum þess að það þarf auðvitað að gæta sjálfstæðis síns og starfa í sínum ranni, en að undirstöðuatriði stjórnkerfis okkar renni ekki saman í eitt eins og svo allt of oft gerist --- heldur eru það líka lögmenn á Íslandi, Lögmannafélagið, sem gera mjög alvarlegar og rökstuddar athugasemdir við þetta og fara talsvert í sömu átt og áðurgreindar athugasemdir dómstólaráðsins. Þeir vekja einnig athygli á því, herra forseti, að þessi fullyrðing sem endurtekin er hér í nál. og er étin upp úr athugasemdum með frv. um að sökum þess að refsingar hafi þyngst svo mikið á síðari tímum þurfi að rýmka þennan refsiramma.

Þeir segja orðrétt, með leyfi forseta:

,,Enn er þó ekki svo komið að mati laganefndar, að farið sé að reyna efri mörk refsiramma 173. gr. a almennra hegningarlaga og alls ekki svo, að réttlæti að sá málaflokkur sé tekinn út sérstaklega og refsirammi þar hækkaður, í stað þess að ákvörðun um það bíði heildarendurskoðunar á refsirömmum einstakra brotaflokka.``

Herra forseti. Er þetta ekki afskaplega skýrt? Og var það ekki nákvæmlega þetta sem málsvari Samfylkingarinnar í þessari umræðu, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, var að reyna að vekja athygli á, að menn skoðuðu þennan refsiramma, þ.e. lög og refsingu heildstætt en væru ekki að tína eplin af trjánum og reyna að taka út einstaka brotaflokka og hugsanlega koma þeim úr takti við allt og allt í hegningarlagalöggjöf okkar. Og þá er því svarað til af hálfu hv. formanns nefndarinnar að þetta séu nú ósköp eðlileg vinnubrögð að byrja á þessu og svo komi þetta og hugsanlega eitthvað annað næst. Auðvitað standa menn ekki svona að verki. Menn reyna náttúrlega að skoða landið í heild sinni og reyna að vega það og meta hvernig við viljum að samfélag okkar líti út.

Þess vegna var það ekkert skrýtin ályktun sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson dró af viðbrögðum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þegar hún kastaði þessu fram: Eruð þið --- og þá er átt við Samfylkinguna --- á móti því að refsa fyrir alvarlega glæpi? Þá var auðvitað ekkert óeðlilegt að hv. þm. brygðist við á eftirfarandi hátt: Er það stefna Sjálfstfl. að tvöfalda beri allar refsingar gagnvart öllum glæpum í landinu? Að refsiramminn í fíkniefnamálum ætti þá sennilega að vera 24 ár í stað 12, að refsiramminn fyrir manndráp yrði þá 32 ár í staðinn fyrir 16 o.s.frv.

Fróðlegt væri þá að heyra hjá hv. þm. hvort Sjálfstfl. hafi breytt um skoðun í þessu sambandi og að íslenska samfélagið ætti að breytast í samfélag hinna hörðu refsinga. Ef það er orðið breytt viðhorf að það þurfi með meðvituðum hætti að auka mjög refsingar gegn glæpum af hvaða toga sem þeir eru, þá væri fróðlegt að heyra það. Ég er ekki talsmaður þess. Ég tek undir þær íhuganir sem fram komu hjá dómstólaráði um að það eru ákveðin mörk þegar fælingarmátturinn fer að snúast í eitthvað allt, allt annað. Hann fer að snúast í það að menn búa til brothættari, harðari og ógnvænlegri heim, neðanjarðarheiminn þar sem menn munu einskis láta ófreistað til að komast undan laganna vörðum og beita enn harðari brotum en ella til að lenda ekki í klóm löggæslu og réttlætis.

Herra forseti. Þetta eru því ekkert mjög einföld mál. Það er af þeim ástæðum sem ég staldra við og er ekki einn á ferð því eins og ég gat um gera dómstólaráð og Lögmannafélag Íslands það líka. Lögmannafélag Íslands les hæstv. ráðherra pistilinn í ítarlegri og rökstuddri umsögn sinni, og raunar meiri hluta nefndarinnar sömuleiðis því að lögmenn á Íslandi segja líka, orðrétt, með leyfi forseta:

,,Mjög er misjafnt hvernig dómstólar nýta refsiramma einstakra hegningarlagaákvæða, allt frá því að hann sé að jafnaði nýttur til fulls yfir í að þeir haldi sig öllu jöfnu í neðri mörkum.``

Hefur hæstv. ráðherra og hv. nefnd farið yfir það lið fyrir lið í hvaða tilfellum refsiramminn er ekki nýttur með það þá hugsanlega í huga að lækka hann til samræmis við dómaframkvæmd? Eru þá aðrir brotaflokkar þar sem refsiramminn hefur af hálfu dómstóla verið nýttur til fulls en er samt ekki hreyfður?

Herra forseti. Ég kalla eftir svörum. Ég get beðið á meðan hv. formaður nefndarinnar sinnir öðrum skyldustörfum hér. Mér liggur ekkert á.

Ég er með spurningu til hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns allshn., vegna fullyrðingar Lögmannafélags Íslands þar sem bent er á að dómstólar nýta refsiramma einstakra hegningarlagaákvæða misjafnlega allt frá því að hann sé að jafnaði nýttur til fulls --- og ég spyr af því tilefni hvort þá sé ekki ástæða til að fara af stað og rýmka þann ramma með vísun til þessa rökstuðnings sem hér er notaður, og ég vænti þess að fá málefnalegt svar --- og yfir í það að þeir haldi sig að öllu jöfnu í neðri mörkum. Ég spyr: Er þá ekki að sama skapi ástæða til að skoða það í þeim tilfellum að færa niður refsirammann þegar dómstólar hafa sýnt það í gegnum áranna rás að þeir hafa ekki nýtt hann nema að litlu leyti? Þannig að samræmi sé þá hér í málflutningi að einhverju leyti.

Ég vænti þess að hv. allshn. hafi farið yfir það lið fyrir lið í umfjöllun sinni um lagafrv. og skoðað það heildstætt hvernig þessi tiltekna breyting félli að öðrum refsiákvæðum hegningarlaganna gagnvart ólíkum eða hugsanlega tengdum brotum.

Lögmenn segja og álykta náttúrlega á sama hátt og ég geri hér, því þeir segja orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir fyrrnefndu tilvikin,`` --- þ.e. mismunandi notkun refsirammans --- ,,hefur löggjafinn þar ekki hafist handa við að hækka efri mörk refsiramma viðkomandi brotaflokka.`` --- Þótt hann sé nýttur til fulls. --- ,,Sú dómaframkvæmd, sem vísað er til í athugasemdum með frumvarpinu, bendir ekki til þess, að mati nefndarinnar, að fyrir hendi sé knýjandi nauðsyn á hækkun refsiramma vegna ávana- og fíkniefnabrota.``

Hverjir vita þetta betur en lögmenn á Íslandi? Hæstv. dómsmrh.? Meiri hluti allshn.? Eða eru þessar fullyrðingar Lögmannafélags Íslands ósannar? Ber að hafa þær að engu? Er þetta bara tóm vitleysa sem hér stendur og nefndinni var sent? Ég spyr því að í nál. meiri hlutans er hið gagnstæða fullyrt, að refsiramminn í grein 173. a sé að fullu nýttur.

Herra forseti. Við verðum að fá botn í þetta atriði. Ekki er hægt að skilja við málið í einhverju limbói. Við erum ekki að tala um eitthvert smámál. Við erum að tala um grafalvarlegt mál sem ekki eingöngu lýtur að þeim einstaklingum sem hugsanlega fá slíka dóma. Nei, það lýtur í raun að samfélagsgerð okkar og hvernig við viljum haga refsingum og hvernig við viljum bregðast við brotum, hvort við viljum gera það fyrst og síðast með glerhörðum refsingum eða hvort við viljum hafa fleiri úrræði. Ég hef yfirleitt verið maður annarra úrræða og hef ekki viljað skoða refsingar fyrr en í lengstu lög og ég hygg að flestir séu sammála um það.

Herra forseti. Lögmannafélagið rökstyður þetta og tínir þetta bara upp eins og það er og bendir á: ,,Með einni eða tveimur undantekningum hefur tildæmd refsing verið vel innan núgildandi refsiramma og enn er ekki sýnt að sá rammi hamli dómaframkvæmd. Telur nefndin`` --- þ.e. nefnd Lögmannafélagsins --- ,,rétt að löggjafinn haldi enn um sinn að sér höndum, þar til einsýnt þyki að refsimat dómstóla sé þannig að brostinn sé gildandi refsirammi.``

Getur þetta verið öllu skýrara, herra forseti? Ég fæ það ekki séð. Þetta er sagt þráðbeint eins og hlutirnir eru.

Herra forseti. Ég hlýt að álykta í framhaldi af þessu og geri það raunar strax að minni kröfu og ósk að nú eftir 2. umr. málsins fari þessi mál aftur til allshn. og hún fari í fyrsta lagi nákvæmlega yfir þær umsagnir sem ég hef m.a. lesið hér og fari í raun ofan í málið lið fyrir lið, sem ekki hefur verið gert hér. Það er alveg lágmarkskrafa. Komi þetta mál til 3. umr. jafnilla unnið úr nefndinni á nýjan leik mun ég flytja tillögu þess efnis að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar því það er auðvitað alls ekki tækt eins og sakir standa.

Herra forseti. Eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson benti á hefur því ekki verið borið við, hvorki af hálfu ráðuneytisins né nefndarinnar að fram hafi farið nein heildstæð athugun á fælingaráhrifum refsinga og þessara tiltæku refsinga. Lögmannafélagið bendir á að ekki sé útilokað, ef slík athugun leiddi það í ljós, að aukinn fælingarmáttur refsinga fælist frekar í lögfestingu refsilágmarks, fremur en að hækka refsihámarkið. Hér er auðvitað ekki orð um það og var ekki orð um það að finna hvorki í framsöguræðu hv. frsm. allshn. né í ræðu hæstv. dómsmrh. við 1. umr. málsins.

Herra forseti. Mér þykir því þetta mál allt fullkomlega vanbúið til þess að hið háa Alþingi geti í raun tekið afstöðu til þess á þeim grundvelli sem hér er lagt til. Mér finnst það satt að segja undirstrika hversu vanreifað þetta mál er, að hæstv. dómsmrh. hefur af einhverjum ástæðum ekki séð ástæðu til eða ekki haft tök á að vera hér til að svara fyrir þessi vinnubrögð. Nú veit ég ekkert um hagi hennar og það getur vel verið að lögmæt forföll hamli því að hún geti verið hér og ég vil trúa því að svo sé, en þá á auðvitað ekki að taka þetta mál á dagskrá. Það er bara ekkert öðruvísi. Það er auðvitað algjör lágmarkskrafa að hæstv. ráðherra hafi til þess ráðrúm og tíma að fylgja eftir jafnumdeildu máli og hér um ræðir. Ég vek athygli á því að gagnrýni er ekki eingöngu að finna í nefndaráliti minni hlutans, heldur var einnig að finna mjög harða og rökstudda gagnrýni við 1. umr. málsins. Þannig að hæstv. ráðherra mátti vænta þess að ef þetta mál kæmi lítið breytt og lítt unnið eins og raun ber vitni úr nefnd, fengi það kaldar kveðjur eins og staðreyndin er.

Herra forseti. Mér er því skapi næst að fara þess á leit að umræðunni verði frestað þar til ráðherra sér tök og tækifæri til þess að vera viðstödd hana, og vil raunar fara þess á leit við forseta að 2. umr. verði a.m.k. ekki lokið fyrr en hæstv. ráðherra geti verið viðstödd umræðuna og að henni verði þá frestað eftir að aðrir hv. þm. sem hér eru á mælendaskrá hafi lokið máli sínu. Það er mín ósk. En ég árétta enn og aftur hina ósk mína um að málið fari aftur til nefndar milli umræðna þar sem nefndin vinni vinnu sína.