Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 16:03:06 (6718)

2001-04-24 16:03:06# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist. Ég held að það séu ekki góð vinnubrögð að það þurfi að vera á ábyrgð og forræði þingmanna að biðja um að fagráðherrar séu viðstaddir umræðu um eigin mál. Hæstv. ráðherrar fá dagskrá vikunnar og vita það yfirleitt með nokkurra daga fyrirvara hvenær mál þeirra eru til umfjöllunar, hvort heldur það eru 1. umr. mál þar sem þeir verða að vera, ellegar 2. eða 3. umr. mál.

Herra forseti. Ég hlýt því að trúa því að forseti sé mér sammála um að það eigi að vera undantekning frá reglunni að hæstv. ráðherrar séu ekki viðstaddir umfjöllun um eigin mál og að ekki þurfi að koma fram sérstök beiðni um það frá þingmönnum að þeir séu hér viðstaddir.

Ég skal hafa á því skilning ef ráðherrar einhverra hluta vegna beiðast undan því af ástæðum sem eru skiljanlegar og biðjast á því afsökunar að þeir geti ekki verið á staðnum. Þá skal ég sýna því skilning og umburðarlyndi. En almenna reglan hlýtur að vera sú að þeir skuli vera við umræðuna umyrðalaust og að fram skuli þá koma fullgildar skýringar á fjarveru þeirra, en ekki öfugt.