Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 16:04:53 (6720)

2001-04-24 16:04:53# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram í þessari umræðu að ég fékk upplýsingar um það á fimmtudaginn sl. að þessi umræða yrði í dag. Það hefur lengi verið vitað að það mál sem hér er rætt og málið sem hér kemur á eftir þessu máli, eru mjög umdeild. Vegna orða hæstv. forseta vil ég segja að ég held að það megi segja ráðherrum þó það til hróss almennt að þegar mjög umdeild mál hafa verið í umræðunni þá hafi þeir verið viðstaddir. Það er því alger undantekning að málum sé komið fyrir eins og nú að hæstv. ráðherra skuli vera fjarstödd þegar jafnumdeild mál og þessi ber á góma í umræðunni á hinu háa Alþingi.

Hins vegar er rétt hjá hæstv. forseta að ég óskaði eftir því að hæstv. ráðherra yrði viðstödd skömmu áður en umræðan hófst. Þá fékk ég þær upplýsingar að hæstv. ráðherra væri upptekin. En ég skal viðurkenna að ekki hvarflaði að mér eina mínútu að hæstv. ráðherra yrði ekki viðstödd umræðu um þau tvö grundvallarmál sem eru á dagskrá þingsins í dag.