Fjarskipti

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 16:06:48 (6721)

2001-04-24 16:06:48# 126. lþ. 110.17 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv. 29/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[16:06]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta þingsins fyrir að gera hlé á umræðu um þetta mál þar til frsm. málsins, hv. formaður samgn., Árni Johnsen, væri til staðar til að svara spurningum sem mig langar til að leggja fyrir hann í tengslum við frv. til laga um breytingar á fjarskiptalögum.

Fyrr við umræðuna hafa verið rakin tildrögin að þessu frv. Í lok árs 1999 voru gerðar breytingar á fjarskiptalögum og þar var m.a. lagt bann við hljóðritun símtala og kveðið á um að ólöglegt væri ef viðmælanda væri ekki tilkynnt um fyrirætlun þess efnis að hljóðrita samtalið. Það frv. sem hér er til umræðu gerir síðan ýmsa fyrirvara um hvernig á skuli haldið.

Þetta frv. stríðir gegn vilja Blaðamannafélags Íslands sem hefur ályktað mjög afdráttarlaust í þessu efni. Ég fór nokkuð í saumana á afstöðu Blaðamannafélagsins og vitnaði í ályktun sem kom frá félaginu í byrjun árs árið 2000 en þar er vísað í almenn vinnubrögð blaðamanna sem noti hljóðupptökur aðallega til að geta haft rétt eftir viðmælendum sínum og hafi að reglu að tilkynna þeim fyrir fram ef ætlunin er að útvarpa viðtalinu. Þetta er hin almenna vinnuregla blaðamanna. En þeir benda jafnframt á að það geti líka reynst fyllilega réttmætt að birta í fjölmiðlum leynilega hljóðritun símtals og nefna þar t.d. að lögregla kunni að vilja útvarpa nafnlausri sprengjuhótun í von um að fá ábendingar um hinn seka og blaðamenn kunni að nýta leynilega hljóðritun símtals til að svipta hulunni af spillingu, svikum og glæpum og um það séu mýmörg dæmi, bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

Síðan segir orðrétt í þessari yfirlýsingu Blaðamannafélagsins, með leyfi forseta:

,,Nýju fjarskiptalögin taka fyrir þetta. Þau draga úr möguleikum blaðamanna til að rækja eftirlits- og aðhaldshlutverk sitt en greiða fyrir hinum sem hyggja flátt og hafa eitthvað að fela.``

Þetta er sem sagt afstaða Blaðamannafélagsins sem vekur jafnframt athygli á því að það ber að gera greinarmun á hljóðritun annars vegar og hinu hvernig með hana er farið hins vegar og vísar í siðareglur blaðamanna og lög sem taki á slíku.

Í frv. er reynt að koma til móts við þessi viðhorf Blaðamannafélagsins þótt afstaða félagsins sé eftir sem áður afdráttarlaus og taki undir það frv. eða þau sjónarmið sem koma fram í frv. sem ég hef flutt um að 3. mgr. 44. gr. fjarskiptalaga verði hreinlega felld brott.

Þetta er sem sagt varðandi þetta fyrsta atriði, þ.e. að þessi lög stríða gegn vilja Blaðamannafélagsins.

Í öðru lagi þá hélt ég því fram að lögin stríddu gegn almennri skynsemi. Lögin eru harla óljós og erfitt er að sjá hvernig eigi að framfylgja þeim. Það segir t.d. á þá lund að aðili þurfi ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku samtals þegar ótvírætt megi ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina. Vísað er til ræðu sem hæstv. samgrh. flutti þegar hann talaði fyrir þessu frv. á sínum tíma sem lögskýringargagns. Þar segir á þá lund um túlkun á þessu ákvæði að almenn ummæli eða tilkynningar í eitt skipti fyrir öll kunni að duga til að koma á framfæri vitneskju til almennings um að hljóðupptökur fari fram. Um það spunnust reyndar nokkrar umræður við 1. umr. málsins hvað hér væri átt við. Ætti fjölmiðill t.d. að auglýsa í Lögbirtingablaði? Ætti að skýra frá því í fjölmiðlinum? Á hvern hátt gengur að lýsa því yfir í eitt skipti fyrir öll að samtöl kunni að verða hljóðrituð? Gildir yfirlýsing um alla fjölmiðla? Þarf t.d. nýtt fréttablað sem er að koma inn um lúgurnar hjá landsmönnum að skýra sérstaklega frá því að þar á bæ muni menn hugsanlega hljóðrita samtöl? Hvað er það nákvæmlega sem menn eiga við í þessu efni?

Að sjálfsögðu skiljum við hvaða markmiði menn eru að reyna að þjóna með þessari lagabreytingu. Hins vegar er ég að halda því fram að hún sé ekki mjög markviss og að mjög erfitt sé að framfylgja henni vegna þess að hún sé hreinlega dæmd til að vera mjög óljós.

Þetta var annað atriðið sem ég vildi nefna.

Í þriðja lagi þá er ekki einvörðungu svo að þetta stríði gegn óskum blaðamanna á Íslandi, gegn almennri skynsemi, heldur stríðir þetta líka gegn því sem flestir menn telja réttlátt. Ég held að það geti ekki vakað fyrir Alþingi að setja ranglát lög. Við viljum hafa lögin réttlát.

Ef fólk verður fyrir ofsóknum í síma þá reynir það að sjálfsögðu að bera hönd fyrir höfuð sér og leitar allra ráða í því efni og þar með sönnunargagna fyrir ofsókninni til að geta síðan leitað réttar síns fyrir dómstólum. Þetta er bannað. Þetta er bannað að gera með þessum lögum nema að ofsækjandanum hafi áður verið greint frá því að til standi að taka ummæli hans upp á segulband.

Hins vegar segir í þessu margrómaða lögskýringargagni, ummælum hæstv. samgrh., sem síðan er tíundað í nefndaráliti meiri hluta samgn., að það dugi að tilkynna þeim sem stunda slíkar ofsóknir í eitt skipti fyrir öll að ummæli hans kunni að verða tekin upp á segulband, eða með beinni tilvitnun í meirihlutaálitið, með leyfi forseta, þá segir hér:

,,Með sama hætti lítur meiri hlutinn svo á að það nægi fórnarlambi persónuofsókna að tilkynna ofsækjanda það í eitt skipti fyrir öll að samtöl þeirra verði tekin upp.``

Er þetta mjög réttlát löggjöf? Mér finnst það ekki. Og samgrn. finnst það ekki ef dæma skal af yfirlýsingu sem kom frá ráðuneytinu 5. janúar árið 2000. Þar er sérstaklega fjallað um þetta. Þar er vísað til þess að ráðuneytið líti ekki svo á að sönnunargögn sem aflað sé með þessum hætti, dugi í málssókn.

En er það ekki svolítið undarlegt að festa í lög ákvæði sem stríðir gegn sanngirninni með þessum hætti? Mér finnst það orka meira en tvímælis og vildi gjarnan fá rökstuðning hv. formanns samgn. fyrir þessu. Ráðuneytið segir með öðrum orðum að það kunni að vera réttlætanlegt að afla sönnunargagna með ólögmætum hætti. En ber okkur þá ekki að breyta lögunum á þann veg að þessara sönnunargagna sé aflað með lögmætum hætti? Mér finnst þetta rekast hvert á annars horn.

Þetta þrennt varð til þess að ég staldraði við þegar þetta frv. upphaflega kom fram, þ.e. þessi afstaða blaðamanna og síðan þau augljósu atriði sem mér finnst mæla gegn þessu frv. og ég hef rakið.

Ég rakti það í máli mínu fyrr í dag að ég teldi þetta frv. byggt á misskilningi. Það er vísað í tilskipun frá Evrópusambandinu og fram kemur í áliti meiri hlutans að verið sé að verða við kvöðum sem séu settar á okkur í Brussel. En þegar þau gögn og þær tilskipanir eru skoðaðar fæ ég ekki betur séð en að menn fari villir vegar því í þeirri tilskipun sem vísað er til er lagt bann við hlerun samtals af hálfu annarra en þeirra sem taka þátt í samtalinu. Ég vildi gjarnan fá útlistun hv. formanns samgn. á þessu, hvernig hann réttlætir skilning sinn eða meiri hluti samgn. réttlætir sinn skilning á þessu ákvæði sem ítrekað er vísað til í málatilbúnaði meiri hlutans, þessari tilskipun Evrópusambandsins.

Margt annað finnst mér orka tvímælis í þessu. Ég held að miklu heilbrigðara og betra sé að setja lög sem eru skýr og sem hægt er að fara eftir í stað þess að setja þjóðinni lög sem eru óljós, óskýr og þokukennd eins og þessi eru og að mínum dómi ná ekki því markmiði sem ég tel að menn séu að reyna að ná. Menn eru að reyna að verja persónur, einstaklinga, fyrir ágangi, m.a. fréttamanna. En ég nefndi sem dæmi að fréttamaður gæti hringt í einstakling og útvarpað samtalinu beint án þess að það varðaði við lög. Ef hann tæki hins vegar samtalið upp á segulband og útvarpaði því svo þá væri hann að brjóta landslög. En ég hugsa að við gætum orðið sammála um það, ég og hv. þm. Árni Johnsen, að hvort tveggja er ekki siðlegt, þ.e. ef það er ekki gert með samþykki þess sem í hlut á.

En þetta eru vangaveltur sem ég vildi gjarnan fá viðbrögð við frá hv. formanni samgn., Árna Johnsen.