Fjarskipti

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 16:48:12 (6727)

2001-04-24 16:48:12# 126. lþ. 110.17 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv. 29/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[16:48]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Johnsen heldur sig við kurteisina en ég er þeirrar skoðunar að það verði kurteisinni lítið til framdráttar að reyna að binda hana í lögum án þess að hún sé þá ítarlega skilgreind, hversu oft á að hneigja sig o.s.frv. Það verður lítið úr slíkri lagabundinni kurteisi ef fólk síðan þorir ekki annað en að fletta upp í lögum um það hvort það eigi að hneigja sig tvisvar eða þrisvar. Lög hjálpa ekki til við kurteisi.

Þessi lög gera þetta bara enn þá flóknara. Þeir sem geta skilgreint sig með ótilgreindum hætti þurfa ekki að sýna þessa kurteisi. Aðrir sem líka eru ótilgreindir og enginn veit hverjir eru þurfa og verða að sýna þessa kurteisi, að tilkynna áform sín fyrir fram, annars eru þeir lögsóttir og ofsóttir. En enginn veit hvorum megin hann er. Er hann í hópnum sem getur tekið upp símtölin án þess að tilkynna það, og það sé allt í lagi, eða er hann í hinum hópnum sem verður að tilkynna að hann sé að taka símtalið upp, annars verði hann lögsóttur og ofsóttur?

Það sem hér er á ferðinni er svo hryllilega bjánalegt, herra forseti, að aumingja kurteisin líður önn fyrir.