Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:27:13 (6738)

2001-04-24 17:27:13# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér verður satt að segja alveg orða vant. Að hv. þm. komi hér upp staffírug og láti þau orð falla að meiri hluti nefndarinnar geri það á grundvelli gagna og var rétt í því talaða orði að fara yfir umsagnir sem fyrir nefndinni lágu. Það er ekki einn einasti aðili sem mælir með samþykkt frv., ekki einn einasti aðili. Ég hef hins vegar rakið það hér og fleiri hv. þm. að tveir virtir umsagnaraðilar mæla gegn samþykkt frv. efnislega og rökstyðja það mjög nákvæmlega. Dómstólaráðið vefengir klárlega þá fullyrðingu í nál. að einhver þörf sé á því að hækka refsirammann í 143. gr. a vegna þess hvernig dómaframkvæmd hafi verið. Lögmannafélag Íslands sömuleiðis. Þetta liggur hér algerlega ljóst fyrir og er þá eðlilegt í því ljósi að hv. þm. hrökkvi í það hornið og segi bara einfaldlega: Ja, þetta er bara pólitísk ákvörðun. Við viljum hörku en þið hin viljið láta deigan síga fyrir þessum djöfulmóð sem fíkniefnin eru. Svoleiðis eru hlutirnir bara ekki. Við viljum skoða þetta mál faglega. Af hverju eru nefndir þingsins að kalla til aðila og óska eftir áliti manna nema til þess að taka mark á þeim og til að taka mið af þeim a.m.k. Það er enginn sem heimtar það að kjörnir alþingismenn láti einhverja aðila úti í bæ segja sér fyrir verkum.

Herra forseti. Það er lágmarkið að þessar umsagnir séu lesnar og reynt að draga einhverjar málefnalegar ályktanir af þeim. Við erum búin að fara markvisst yfir það lið fyrir lið hvernig virtustu umsagnaraðilar og annar af tveimur aðilum sem kallaðir voru fyrir nefndina --- það voru ekki nema tveir aðilar kallaðir fyrir nefndina, það var kontóristi í ráðuneytinu, skrifstofustjóri þar, og fulltrúi Lögmannafélagsins --- mælir gegn samþykkt frv. Klárara og kvittara getur þetta ekki verið, herra forseti. Á hvaða vegferð erum við hér?