Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 18:01:47 (6743)

2001-04-24 18:01:47# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[18:01]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst stundum eins og ég sé hér að berja höfðinu við steininn. Það er sama hvaða rök maður kemur fram með því iðulega er sagt við mann að maður segi einungis ,,af því bara``. Ég held að svo sé ekki. Þetta kom berlega fram í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar þegar hann sagðist einfaldlega ekki hafa verið að hlusta á það sem ég sagði m.a. í fyrstu ræðu minni og síðan í andsvari við einn hv. þm. hér áðan.

Varpað var fram spurningunni af hverju 12 ár, af hverju ekki 15 ár eða 20 ár. Ég nefndi tvenns konar rök þar. Í fyrsta lagi er þetta í samræmi við þá lagahefð sem ríkt hefur á Íslandi. Þegar refsirammi er endurskoðaður þá er þetta eðlilegt skref í ljósi þeirrar sögu sem við höfum við endurskoðun á almennum hegningarlögum. Síðan er hitt, að þegar við lítum til Norðurlandanna, t.d. Noregs sem við höfum oft viljað bera okkur saman við, Svíþjóðar og Danmerkur, þá er þessi refsirammi að hækka úr tíu árum í 12, ekkert óeðlilegur, engan veginn. Það eru því fullgildar ástæður fyrir því og hugsun á bak við það að hækka þetta úr tíu árum í 12 ár.

Síðan spurði hv. þm.: Hvað næst? Hvað verður tekið næst? Ég held að mig minni rétt að hæstv. dómsmrh. hafi m.a. lýst því yfir að kynferðisafbrot verði m.a. athuguð, og þá sérstaklega þau sem beinast gegn börnum, og þá skoðað hvort herða eigi þann ramma.