Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 18:03:45 (6744)

2001-04-24 18:03:45# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alveg skilning á því að það verður að gæta þess í hegningarlögum að ekki verði til innra misræmi gagnvart einstökum brotategundum og í því ljósi sé eðlilegt að taka ekki hin stóru stökk og ég hef á það bent. Ég spyr hv. þm. og árétta það hvort hún hafi engar áhyggjur af því að þessi breyting ein og sér hafi það í för með sér að hætt sé við að misræmis fari að gæta í refsingum milli einstakra brotaflokka. Ég spyr um það.

Hv. þm. hefur nú upplýst það hér að hæstv. ráðherra muni væntanlega næst fara fram varðandi grafalvarleg brot gagnvart börnum. Nú man ég það ekki en einhvers staðar þóttist ég hafa lesið að þar væri vandamálið ekki að refsiramminn væri ekki nægilega rúmur, heldur væri dómaframkvæmd slík að á gagnrýni hafi borið. En það er annað mál. En lögmenn og dómstólaráð hins vegar nefna það að í ákveðnum brotaflokkum, sem þeir tilgreina þó ekki, séu menn komnir alveg upp undir þak og þar þurfi að skoða mál og að í öðrum brotaflokkum sé refsiramminn slíkur að hann sé alls ekki nýttur. Þess vegna spurði ég: Er þá ekki ástæða til þess að fara alla leið og fara yfir þetta svið þannig að heildarsamræmi verði til staðar. Ég kalla eftir málefnalegu svari við þessu þar sem ég vil reyna að ná þessu málefnalega inn en missa ekki þetta mál út í eitthvert pólitískt karp. Það er alls ekki þessum mikilvægu málum öllum, hegningarlögum, til framdráttar.