Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 18:26:11 (6750)

2001-04-24 18:26:11# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, KolH
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[18:26]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þessi umræða hefur tekið óvænta stefnu á síðari stigum með því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minnti á þáltill. samþykkta á Alþingi að öllum líkindum árið 1998. Hjá henni kom fram að Alþingi hafi samþykkt að láta fara fram rannsókn á refsingum við afbrotum sem mundi leiða í ljós nákvæmlega það sem kallað hefur verið eftir við þessa umræðu. Sú rannsókn mundi leiða í ljós þær röksemdir sem við höfum óskað eftir og við teljum að skorti í málinu. Allur dagurinn hefur farið í að gagnrýna og kalla hér eftir ákveðnum svörum sem ekki hafa fengist.

Ég verð að lýsa því yfir, herra forseti, að ég lýsi fullri ábyrgð á hendur hæstv. dómsmrh. fyrir að láta hv. formann allshn. standa eina fyrir máli sínu, ekki síst í ljósi þess að hæstv. dómsmrh. var formaður allshn. þegar áðurnefnd þáltill. var samþykkt. Það er ekki eins og hæstv. dómsmrh. hafi ekki verið kunnugt um hvers vegna málið stendur á brauðfótum. Það er með ólíkindum að hæstv. ráðherra hafi ekki getað gefið sér tíma til að vera við þessa umræðu þar sem hún vissi frá fyrsta degi, frá því að málið var tekið fyrir, að hér væri um mjög umdeilt mál að ræða. Mér þykir alvarleiki málsins aukast enn í ljósi þessarar þál.

Ég verð, herra forseti, að lýsa undrun minni á því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skuli ekki koma hér og svara hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um hvort hún vilji beita sér fyrir því að málið verði kallað til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Ég ítreka þá spurningu. Ég tel okkur, í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram, eiga heimtingu á því að fá svar við því hvort hv. þm. samþykki það að nefndin taki málið til athugunar milli 2. og 3. umr. Annað væri ósanngjarnt.