Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 18:39:11 (6755)

2001-04-24 18:39:11# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, JB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að það er afar óeðlilegt ef þingmenn og þingheimur fær ekki svar eða viðbrögð frá hv. formanni allshn. varðandi þá ósk að málið verði aftur tekið fyrir í nefnd. Það er ekki svo stórt mál að taka mál aftur fyrir í nefnd og þetta mál er ekki þannig að það þurfi svo óskaplega flýtimeðferð á þinginu að öryggi lands og þjóðar sé í hættu vegna þess.

Á það ber líka að benda, herra forseti, að hæstv. dómsmrh. hefur ekki verið við umræðuna til að upplýsa hvernig hæstv. ráðherrann lítur á þau mál sem hér hafa komið fram, ekki síst, herra forseti, á þá skýrslu sem einmitt hæstv. ráðherra, sem þáv. formaður allshn., beitti sér fyrir að yrði unnin og tekin saman og varðar þetta mál. Hæstv. ráðherra hefur ekki verið viðstaddur, sem ég reyndar tel að sé ekki sanngjarnt, svona stórmál sem snertir þetta með svo miklum þunga. Málið er flutt með svo miklum þunga að það má ekki einu sinni fara aftur inn í nefnd. Ef þetta er svona stórt mál þá hefði hæstv. ráðherra átt að sýna að málinu var fylgt eftir af svo miklum þunga að þess ætti ekki að þurfa og ráðherrann hefði þá getað verið viðstaddur.

Herra forseti. Ég tel þetta sjálfsagða kröfu áður en umræðu lýkur um málið og áður en gengið verður til atkvæða að þá fáum við svör um það frá hv. formanni allshn. hvort hún vilji beita sér fyrir því að málið fari aftur til umfjöllunar í nefnd. Mér finnst það sanngirniskrafa og engin rök hafa komið fram gegn því heldur einmitt allt í hina áttina að þetta væri afar eðlilegt og sanngjarnt í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað og ekki síst einmitt vegna þeirra deilna að hæstv. ráðherra hefur ekki verið viðstaddur til að geta svarað fyrir það og því væri eðlilegt að málið fari aftur til nefndar.

Ég vil því skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því við hv. formann allshn. og nefndina að sú ákvörðun liggi fyrir að áður en greidd verða atkvæði um þetta frv. að hér við 2. umr. liggi sú ákvörðun fyrir að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég ítreka þá ósk mína, herra forseti.