Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 18:53:29 (6763)

2001-04-24 18:53:29# 126. lþ. 110.23 fundur 653. mál: #A framhaldsskólar# (deildarstjórar) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[18:53]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, með síðari breytingum.

Þetta frv. á það sameiginlegt með frv. um breyting á lögum um leikskóla að það er flutt í tengslum við lausn kjaradeilu, en að þessu sinni kjaradeilu Félags framhaldsskólakennara, Félags stjórnenda í framhaldsskólum og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs í janúar sl.

Ég gaf hinn 8. janúar sl. út tvær endurskoðaðar reglugerðir um starfsemi framhaldsskóla, um starfslið og skipulag framhaldsskóla, nr. 5/2001, og um starfstíma framhaldsskóla og leyfisdaga, nr. 6/2001. Endurskoðun þessara reglugerða var hluti af lausn kjaradeilu fyrrnefndra aðila. Fyrri reglugerðin felur í sér veigamikla breytingu á innra skipulagi framhaldsskóla. Mikilvæg ákvæði um vinnutíma, skiptingu starfa og ábyrgð eru nú skilgreind í reglugerð í stað kjarasamnings áður.

Í samræmi við framangreindar breytingar er með frv. þessu lagt til að starfsheitið deildarstjóri verði fellt niður í lögum um framhaldsskóla. Að öðru leyti þarfnast frv. þetta ekki skýringa.

Herra forseti. Í umsögn fjmrn. um þetta mál kemur fram --- og er rétt að líta til hennar því að hér er um það að ræða að við erum að taka á máli sem tengist kjaradeilu sem var langvinn í framhaldsskólunum á liðnum vetri --- en í umsögninni segir, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu er lagt til að starfsheitið deildarstjóri verði fellt úr lögunum og störf þeirra ýmist falin kennurum eða öðrum stjórnendum í samræmi við ákvæði reglugerðar menntamálaráðherra um starfslið og skipulag framhaldsskóla.

Frumvarpið er flutt í tengslum við lausn á kjaradeilu Félags framhaldsskólakennara, Félags stjórnenda í framhaldsskólum og fjármálaráðherra í janúar sl. Kostnaður vegna breytinga sem felast í frumvarpinu er hluti af kostnaði vegna kjarasamningsins og hefur ekki verið metinn sérstaklega. Fjármálaráðuneytið hefur áætlað að kostnaður við kjarasamninginn nemi um 800 millj. kr. á ári þegar allir þættir hans verða komnir til framkvæmda.``

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. menntmn.