Kvikmyndalög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 19:15:54 (6769)

2001-04-24 19:15:54# 126. lþ. 110.25 fundur 668. mál: #A kvikmyndalög# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[19:15]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil fagna því sérstaklega að þetta frv. skuli fram komið. Það er rétt sem hæstv. menntmrh. sagði, að þess hefur nokkuð lengi verið beðið. Ég sé að frv. hefur verið unnið í mjög góðu samstarfi og samráði við fagaðila enda held ég að þau nýmæli sem hér er bryddað upp á séu í takt við það sem kvikmyndagerðarfólk hefur lagt áherslu á þegar það hefur átt erindi við okkur í hv. menntmn.

Í frv. er lagt til að það sem nú heitir Kvikmyndasjóður skiptist í í tvær stofnanir, Kvikmyndamiðstöð Íslands annars vegar og Kvikmyndasafn Íslands hins vegar. Þá kem ég að spurningunni sem vaknar hjá mér vegna þessa máls. Það hafa verið gerðar athugasemdir við það í tengslum við safnalög að kvikmyndasafns sé þar ekki getið. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hygðist gera tillögur um einhverjar breytingar á safnalagafrv., sem stendur til að afgreiða nú á vordögum, til að koma til móts við þessar óskir. Mér finnst að Kvikmyndasafn, sem hér er gert ráð fyrir að verði rekið sem sjálfstæð stofnun, eigi að heyra undir safnalög.

Að öðru leyti vil ég ekki hafa mörg orð um þetta frv. Eftir að hafa kynnt mér hér efni frv. hef ég ekki sérstakar athugasemdir við það á þessu stigi. Auðvitað kann eitthvað að koma í ljós í meðförum nefndarinnar en ég tel ástæðu til að fagna þessu máli.