Kvikmyndalög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 19:18:20 (6770)

2001-04-24 19:18:20# 126. lþ. 110.25 fundur 668. mál: #A kvikmyndalög# (heildarlög) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[19:18]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir þingmannsins og vænti þess að hv. menntmn. fari yfir frv. Það er ekki langt en sjálfsagt og eðlilegt að nefndin taki það til skoðunar og leiti umsagna. Eins og hv. þm. sagði þá er aldrei að vita, þegar menn fara að rýna í einstök atriði í svona frv., nema fram komi betri hugmyndir en við höfum fest hér á blað. Það er sjálfsagt að skoða allt slíkt.

Hv. þm. talaði um stöðu Kvikmyndasafnsins. Ég lít þannig á að með safnalöggjöfinni sé rætt um þrjú höfuðsöfn, þ.e. söfn sem starfa eins og Náttúruminjasafnið, Þjóðminjasafnið og Listasafn Íslands. Það eru söfn sem starfa og ná yfir landið allt. Undir þeim geta verið byggðasöfn og náttúruminjasöfn víðs vegar á landinu. Listasafn Íslands mun vonandi líka þróast þannig að starfsemi þess verði víðar en hér í Reykjavík.

Kvikmyndasafnið er hins vegar í sömu deild, ef þannig má að orði komast, og Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn. Það er sérstakt safn sem verður væntanlega ekki dreift á marga staði eða spannar ekki landið allt eins og þessi þrjú höfuðsöfn. Þess vegna tel ég ástæðulaust að taka það sérstaklega inn í safnalöggjöfina. Með ákvæðum þessa frv. er tekið af skarið um ótvíræðan og traustan starfsgrundvöll Kvikmyndasafnsins, sem hlýtur eðli málsins samkvæmt að starfa á einum stað og verður ekki höfuðsafn með sama hætti og þau þrjú sem ég tilgreindi.