Frumvarp um almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:36:14 (6779)

2001-04-25 13:36:14# 126. lþ. 111.91 fundur 483#B frumvarp um almenn hegningarlög# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:36]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er mjög athyglisvert hvernig þetta mál hefur þróast. Þegar við vorum að ræða það við 1. umr. gerði ég að meginmáli ræðu minnar þá tillögu sem allshn. afgreiddi frá sér á 122. löggjafarþingi. Það er umhugsunarefni að þá var talið mjög mikilvægt til þess að taka afstöðu til refsinga og refsilengdar að láta fara fram slíka rannsókn eins og þá var verið að afgreiða með tillögunni og varðaði líkamsárásir, kynferðisbrot og fíkniefnabrot. Tekið er fram í greinargerð allshn. að mjög mikilvægt sé að slíkar rannsóknir liggi fyrir fyrir faglega umræðu og mótun refsistefnu við lagasetningu og endurskoðun refsilaga, ekkert minna. Þetta eru orð allshn. og þá væntanlega undir forustu formanns hennar, þ.e. að slíkar rannsóknir séu nauðsynlegar fyrir faglega umræðu og mótun refsistefnu eða lagasetningu og endurskoðun refsilaga. Ég gerði þetta að meginatriði ræðu minnar við 1. umr. og það er mjög einkennilegt, herra forseti, að fá að heyra það nú að einhvern tíma á þessum tíma frá 1997--1998 hafi þessi nefnd verið sett á laggir en hún hafi hvergi nokkurs staðar komið að málum í aðdraganda þess að hingað kemur frv. sem nú á að fara að lögfesta um breytingar á refsirammanum. Ég tek eindregið undir það að allshn. taki þetta mál fyrir milli 2. og 3. umr. og sé enga ástæðu til annars en stjórnarmeirihlutinn sýni svolítinn dug og samþykki að allshn. klári að skoða þau mál sem allshn. sjálf á sínum tíma setti sem grundvallaratriði í vinnubrögðum.