Frumvarp um almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:40:53 (6781)

2001-04-25 13:40:53# 126. lþ. 111.91 fundur 483#B frumvarp um almenn hegningarlög# (aths. um störf þingsins), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:40]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þá skoðun sem hér hefur komið fram að við fáum málið aftur til umfjöllunar í nefndinni --- mér hefur líka skilist að formaður umræddrar nefndar sé Sigurður T. Magnússon héraðsdómari --- og þó ekki væri annað en að nefndin heyrði aðeins ofan í hann og þá vinnu og þá væntanlegu skýrslu sem hæstv. dómsmrh. hefur ýjað að að væri á leiðinni.

Það hefur líka verið talað um að hækkun á refsirammanum sé studd kröfu almennings. Ef einhvers staðar hefur verið hávær krafa almennings um hækkun á refsiramma þá vitum við líka alveg hvar það er og það kemur einmitt fram í þessari þáltill. að sá refsirammi sé einn af þeim sem á að skoða, þ.e. kynferðisafbrot gagnvart börnum. Það er hávær krafa almennings að þau mál verði skoðuð og ég minni þingmenn núna á nýgengið mál á Vestfjörðum þar sem ekki er hægt að taka á málinu þar sem þolandinn er drengur en ekki stúlka. Þar þarf að taka á ef einhvers staðar. Mér finnst sú till. til þál. sem samþykkt var á 122. löggjafarþingi vera til fyrirmyndar um vinnubrögð, þ.e. að safna í gagnagrunn fyrir þingmenn til þess að byggja á í þeirri vinnu sem hér er unnin.