Frumvarp um almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:42:26 (6782)

2001-04-25 13:42:26# 126. lþ. 111.91 fundur 483#B frumvarp um almenn hegningarlög# (aths. um störf þingsins), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þm. vil ég leyfa mér að varpa fram þeirri spurningu hvort bíða eigi með allar breytingar á hegningarlögum á Alþingi þar til búið er að endurskoða öll hegningarlögin. Þetta er enginn smálagabálkur sem verið er að tala um hér. Og eins og ég sagði áðan eru þau stöðugt í endurskoðun. Ég er hins vegar sammála því að það þurfi að skoða kynferðisafbrotamál. En varðandi það mál sem nefnt var hér síðast þá er sem betur fer búið að breyta öllum þeim lögum þannig að nú gildir jafnræði milli barna sama af hvoru kyni þau eru. (Gripið fram í.) Það er búið að breyta fyrningu og öðru.

Það á einmitt að skoða þessi mál í tengslum við sérstaka nefnd sem skipuð hefur verið vegna tveggja skýrslna sem gerðar hafa verið fyrir þingið, m.a. um vændi og lagaumhverfi á Norðurlöndum um klám og annað þannig að ég vænti þess að við fáum góðar tillögur frá þeirri nefnd.

Ég vil bara ítreka að þetta mál þolir ekki bið. Það er ekki mikið eftir af þinginu. Ef hv. þm. vilja fara út í slíka endurskoðun í heild sinni á þessum lagabálki þá er alveg ljóst að ekkert verður af þessum lagabreytingum og þá spyr ég: Vilja hv. þingmenn bera byrgð á því?