Kynningarstarf Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:11:00 (6793)

2001-04-25 14:11:00# 126. lþ. 112.1 fundur 576. mál: #A kynningarstarf Flugmálastjórnar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. hefur gert grein fyrir fyrirspurninni í þeim tveimur liðum sem hún er. Af því tilefni vil ég, áður en ég fer með talnaefni sem spurt er um, vekja athygli á því að í reglugerð um Flugmálastjórn, nr. 441/1997, er í 2. gr. svohljóðandi texti um hlutverk og verkefni Flugmálastjórnar, að hún veiti almenningi, atvinnulífi og stjórnvöldum ráðgjöf og þjónustu þar sem sérþekking hennar kemur að notum svo sem vegna skipulagsmála og mannvirkjagerðar. Þess vegna hlýtur að vera í fyllsta máta eðlilegt og í samræmi við reglur að þegar kemur að því að taka svo stórar og afdrifaríkar ákvarðanir eins og að breyta skipulagi og gera ráð fyrir því að færa aðalinnanlandsflugvöll okkar burt úr borgarlandinu, að áður en kæmi til slíkra kosninga færi fram kynning af hálfu þeirra aðila sem eru ábyrgir fyrir skipulagi innanlandsflugsins. Þess vegna er að mínu mati í fyllsta máta óeðlilegt að stjórnmálamenn og hv. alþm. reyni að gera tortryggilegt að veittar séu upplýsingar til almennings og stjórnmálamanna um hvað sé fram undan, hverjar séu tillögur flugmálayfirvalda hvað varðar skipulagsmál Reykjavíkurflugvallar.

Kostnaðurinn af kynningarstarfi Flugmálastjórnar síðustu fimm árin er svohljóðandi:

Árið 1996 voru 4,5 millj. settar til kynningarmála sem er 0,22% af heildarveltunni á vegum Flugmálastjórnar. Árið eftir, 1997 eru það 3 millj., árið 1998 eru það 3,7 millj., árið 1999 eru það 6,7 millj. og árið 2000 eru það 4,2 millj. sem er 0,13% af heildarveltunni, og á þessu ári eru það 3,7 millj.

Þess ber að geta að um margvíslegan kostnað er að ræða. Það er ekki eingöngu verið að leggja til kostnað þarna vegna skipulagsmála heldur er flugþing fært til þessa liðar og margvísleg kynningarstarfsemi, m.a. kynningarstarfsemi sem er nágrannakynning o.s.frv. vegna skipulagsmála þannig að þarna er af mörgu að taka.

Í annan stað er síðan spurt: ,,Hversu miklu fé hefur Flugmálastjórn varið í kynningarstarf og upplýsingamiðlun fyrir atkvæðagreiðslu meðal Reykvíkinga um framtíðarnýtingu Vatnsmýrar í Reykjavík?``

Það sundurliðast þannig á þessu ári að vinna við útfærslu á gögnum sem voru tillögur British Aerospace en þeir aðilar gerðu mjög umfangsmiklar skipulagstillögur fyrir Flugmálastjórn, og útfærsla á þeim gögnum sem var mjög athyglisverð og upplýsandi tölvumynd sem kostaði 1,7 millj. að gera, 1.733.583 kr., var ekki eingöngu vegna kosninganna. Það ber að undirstrika það.

Í öðru lagi kostaði vinna og kynning vegna skipulagshugmynda og gerð kynningarefnis 991.430 kr., kynningarefni vegna báss við ráðhúskynninguna í Reykjavík 559.451 kr. og gerð bæklingsins sem hv. þm. gerði að umtalsefni og dreifing hans 686.742 kr.

Þetta er kostnaðurinn sem hér um ræðir og ég vona að hv. þm. hafi fengið þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru.