Kynningarstarf Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:20:48 (6798)

2001-04-25 14:20:48# 126. lþ. 112.1 fundur 576. mál: #A kynningarstarf Flugmálastjórnar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Mér þykir ákaflega fyrir því að þessi fyrirspurn mín skuli vera að breytast í hluti sem henni var alls ekki ætlað. Og mér þykir afskaplega fyrir því að hv. 1. þm. Norðurl. e. skuli leyfa sér að breyta saklausri fyrirspurn í frv. til laga um að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður. Það er meira en að gera úlfalda úr mýflugu.

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir afskaplega greinargóð svör en á engu að síður örlítið vantalað við hæstv. ráðherra vegna upplýsinganna um árið í ár þar sem fram kemur sundurliðaður kostnaður vegna kynningarstarfs á þessu ári sem nemur að því er mér sýnist tæplega 4 millj. Í fyrra svarinu var getið um 3,7 millj. vegna kynningarstarfs á árinu 2001 þannig að ég þarf aðeins að fá nánari útlistun á því hvernig árið 2001 er hugsað. Er fyrri talan sem hæstv. ráðherra gaf áætlun eða er hún það sem búið er að eyða það sem af er þessu ári og eigum við þá von á meiri kostnaði vegna kynningarstarfs Flugmálastjórnar á árinu? Ég fæ þetta ekki alveg til að ganga upp í mínum huga.

Síðan vil ég ítreka það, herra forseti, að almenningur sem á samkvæmt alþjóðasamningum rétt á réttlátri málsmeðferð á sviði umhverfismála hefur fullan rétt á því að skoða svona mál ofan í kjölinn. Það er alveg sjálfsagt mál að um svona lagað sé spurt. Við getum verið minnug þess sem upphófst í deilunni um virkjun Jökulsár í Fljótsdal í fyrra þar sem Landsvirkjun var gagnrýnd fyrir að beita ofurefli í kynningarstarfsemi í því máli á meðan sjálfstæð félagasamtök höfðu ekkert bolmagn á við það stóra opinbera fyrirtæki og þetta mál er tengt því máli, það er af sama toga. Það er því áríðandi að stjórnvöld standi vörð um þau réttindi sem almenningur á til réttlátrar málsmeðferðar í umhverfismálum.