Kynningarstarf Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:23:07 (6799)

2001-04-25 14:23:07# 126. lþ. 112.1 fundur 576. mál: #A kynningarstarf Flugmálastjórnar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Fyrst vil ég geta þess að þær tölur sem ég nefndi fyrir árið í ár er sá útlagði kostnaður sem þegar hefur verið bókaður, enda er það lág tala miðað við þær tölur sem ég nefndi að öðru leyti fyrir hvert hinna áranna.

Aðeins til að taka af allan vafa var kynningarfulltrúi Flugmálastjórnar ekki ráðinn sérstaklega til þess að fást um Reykjavíkurflugvöll og skipulagsmálin þar, það er fjarri lagi, heldur til þess að vinna almennt að kynningarmálum fyrir Flugmálastjórn og það veitir svo sannarlega ekki af að einhver sjái um það.

Í annan stað vil ég minna á og vekja athygli hv. þm. á því að flugráð, þar sem eru m.a. fulltrúar stjórnmálaflokkanna á Alþingi, ályktaði sérstaklega um að samgrh. stæði fyrir því að skipulagstillögurnar af Reykjavíkurflugvelli yrðu kynntar sérstaklega og það var í framhaldi af því sem ég skrifaði flugmálastjóra bréf og fól honum að standa fyrir nauðsynlegri kynningu.

Síðan talar hv. fyrirspyrjandi um að ríkisvaldið sé að nota afl sitt og stærðarmun. Það lá náttúrlega alveg fyrir að kynning á vegum borgarinnar var auðvitað miklu meiri en nokkru sinni fór fram á vegum Flugmálastjórnar. Það voru auglýsingar á næstum því hverju einasta strætisvagnaskýli í borginni vikum saman og mikill áróður hafður í frammi af forustumönnum Reykjavíkurborgar, þ.e. borgarstjóranum sem var yfirlýstur andstæðingur ásamt með formanni skipulagsnefndar borgarinnar. Að tala um að Flugmálastjórn hafi í krafti afls síns sýnt yfirburði svo ámælisvert sé er fjarri öllu lagi og ég held að borgin hafi alveg haft allt það afl sem hún þurfti og vildi til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.