Öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:25:44 (6800)

2001-04-25 14:25:44# 126. lþ. 112.2 fundur 661. mál: #A öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Tilefni þeirrar fyrirspurnar sem hér er lögð fram var snjóflóð sem féll í Oddsdal þann 1. apríl sl. Snjóflóðið var um 150 metra breitt og féll Norðfjarðarmegin í ofanverðu Oddsskarði. Fólksbíll með fjögurra manna fjölskyldu lenti í jaðri flóðsins en fólkið sakaði ekki sem betur fer.

Herra forseti. Norðfjarðarvegur liggur frá Egilsstöðum eftir Fagradal og í Neskaupstað. Þetta er þjóðvegur og er hluti af hringveginum og því mikil umferð á þeim vegi. Leiðin er öll malbikuð en á nokkrum stöðum þarf að huga betur að umferðaröryggi, bæði vegna brattrar legu vegarins og þar af leiðandi kröppum beygjum, vegna þröngrar legu við gil í Fagradalsskriðum og eins vegna hættu á snjóflóðum og aurskriðum. En vegna legu landsins og fjalllendis verður aldrei hægt að koma í veg fyrir snjóflóð og þeim mun mikilvægara er að gæta fyllsta umferðaröryggis við hönnun vega, bæta mannvirki með aukinni þekkingu og tækni og viðhalda góðum snjóflóðavörnum. En undanfarin 20 ár hefur Vegagerðin skráð öll snjóflóð og er eðlilegt að nota þá skrá til að forgangsraða varnaraðgerðum vegna snjóflóða.

Í Oddsdal falla snjóflóð á víðu svæði og sem betur fer hafa þau ekki verið tíð á því 20 ára tímabili sem mælingar hafa staðið yfir. Í Oddsdal verður því erfitt að koma fyrir afmörkuðum snjóflóðavörnum. Eina leiðin til að koma á öryggi í umferð á þessum stað gagnvart snjóflóðum er með nýjum jarðgöngum í Oddsskarði sem lægju þá mun neðar en núverandi göng.

Herra forseti. Það gegnir öðru máli um tíðni snjóflóða við Grænafell sem liggur rétt ofan við Reyðarfjörð. Hvergi á landinu hafa mælst tíðari snjóflóð en úr því felli og mjög oft fara þau yfir þjóðveginn. Slysahætta er því mikil og óöryggi á þeim 200--300 metra kafla sem er verstur, enda hefur almannavarnanefnd svæðisins bent á þessa slysagildru.

Á síðasta ári var Vegagerðin með lagfæringar í gili undir svokölluðum Hrafnakömbum þar sem snjóflóðin eru tíðust og beindust aðgerðirnar að því að taka á móti snjóflóðum og draga úr hættu á að þau færu yfir þjóðveginn. Ef vel ætti að vera þyrfti að yfirbyggja veginn á þessum stutta kafla. Vegurinn um Fagradalsskriður liggur að bröttu gili og er augljóst að hann getur verið hættulegur í hálku og því þarf að setja vegrið á þeim stöðum sem varasamastir eru.

Herra forseti. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa, í samráði við Vegagerðina, til að auka öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi:

a. gagnvart snjóflóðum, m.a. á Oddsdal úr Hátúni og úr Grænafelli innarlega í Reyðarfirði,

b. með vegriðum til varnar útafakstri við erfiðar aðstæður, svo sem af völdum hálku og þoku,

c. með jarðgöngum milli Norðfjarðar og Eskifjarðar?