Öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:32:43 (6802)

2001-04-25 14:32:43# 126. lþ. 112.2 fundur 661. mál: #A öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Einu atriði tel ég nauðsynlegt að bæta við þá umræðu sem hér fer fram varðandi öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi. Þó er það í raun almennara en svo að það sé eingöngu bundið við Norðfjarðarveg. Það varðar tilkynningar um aðvaranir vegna hættu á snjóflóðum.

Það virðist nokkur misbrestur á að tilkynningar berist þegar, eigum við að segja, vanir vegfarendur fara um vegi og átta sig á yfirvofandi hættu. Það fara auðvitað fleiri um svæði þar sem getur verið hætta á snjóflóðum en þeir sem geta talist vanir.

Ég hef tekið eftir því, m.a. í vetur, að af og til hafa komið aðvarnir frá Vegagerðinni um hættu á snjóflóðum. En þegar snjóflóðið, sem er tilefni þeirrar fyrirspurnar sem hér liggur fyrir, féll var mörgum þeirra sem eru vanir að fara um þetta svæði ljóst að þar gæti verið hætta á ferðum. Í þessu tilfelli hafði því miður ekki verið send út aðvörun. Ég tel því nauðsynlegt að hæstv. samgrh. tjái sig örlítið um þær reglur sem gilda þegar sendar eru út aðvaranir og á hvers ábyrgð þær eru.