Öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:36:22 (6804)

2001-04-25 14:36:22# 126. lþ. 112.2 fundur 661. mál: #A öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna þess sem hv. fyrirspyrjandi nefndi um þann kost sem til greina kæmi, að byggja yfir tiltekna hluta af Norðfjarðarvegi, þá er það ekki á dagskrá samkvæmt vegáætlun. Ég minnist þess ekki að um það hafi komið tillaga frá þingmönnum Austurl. við skiptingu vegafjárins á svæðinu. Að sjálfsögðu er þetta eitt af þeim mörgu verkefnum sem þarf að huga að en kostnaður við vegskála er mikill. Það er mjög dýr lausn og erfið og þarf að sjálfsögðu að skoða málið í því ljósi.

Hvað varðar það sem hv. 4. þm. Austurl. sagði um reglur um aðvörun vegna snjóflóða þá get ég ekki farið með þær reglur nákvæmlega hér án undirbúnings. Mikilvægast er auðvitað að líta til þess að starfsmenn Vegagerðarinnar eru á vettvangi. Þeir þekkja aðstæður best og senda út viðvaranir í ljósi reynslu sinnar. Þeir fara eftir þeim reglum sem yfirstjórn Vegagerðarinnar setur. Ég held að það sé afar mikilvægt að treysta fyrst og fremst á árvekni þeirra sem svo ágætlega standa að þjónustu við vegfarendur um allt land.

Að öðru leyti þakka ég fyrir þær umræður sem hér hafa orðið um þetta mikilvæga mál. Þær minna okkur á hversu mörg verkefnin eru sem við þurfum að sinna varðandi þjóðvegakerfi landsins.