Uppgjörsaðferðir fjármálafyrirtækja

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:46:37 (6807)

2001-04-25 14:46:37# 126. lþ. 112.3 fundur 577. mál: #A uppgjörsaðferðir fjármálafyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir afar greinargóð svör um þetta mál og geri mér mætavel grein fyrir því að fátt er einhlítt í þessum efnum og afar vandmeðfarið hvernig staðið er að þessum uppgjörsaðferðum.

Ég vil hins vegar sérstaklega fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að nú sé fyrirhugað að huga frekar að meiri samræmingu á þessum sviðum. Það er mjög mikilvægt, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, að þessar reglur séu sem gagnsæjastar þannig að þeir sem þurfa allra hluta vegna að kynna sér ársreikninga fjármálafyrirtækja geti gert það með því að bera þá saman með nokkuð samanburðarhæfum hætti milli einstakra stofnana og ég tala nú ekki um á milli ára. Og það kom auðvitað skýrt fram í máli hæstv. ráðherra að þessar aðferðir eru samræmdar á milli ára hjá einstökum fjármálastofnunum og út af fyrir sig er mjög mikilvægt að svo sé þannig að menn geti ekki breytt uppgjörsaðferðunum til þess að ná fram niðurstöðu sem e.t.v. er á einhvern hátt hagstæðari.

Hins vegar liggur það fyrir, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, að þessar matsaðferðir eru mjög mismunandi milli fyrirtækjanna. Það kom fram einmitt núna á þessu vori þegar fjármálastofnanirnar voru að birta ársreikninga sína. Við verðum að átta okkur á því t.d. að afkoma þeirra lífeyrissjóða sem eru núna að greina frá afkomu sinni ræðst mjög mikið af því hvernig þeir bókfæra markaðsverðbréf sín. Það er ljóst að margir þessara sjóða sýna í raun lakari ávöxtun ef notuð er markaðsviðmiðunin, ef notað er markaðsverð einstakra markaðsbréfa sem eru í þeirra eigu vegna þess hvernig gengisþróunin var á síðasta ári og það mun væntanlega líka koma fram ef fram heldur sem horfir varðandi þennan hluta markaðarins á árinu sem nú var að líða.

Virðulegi forseti. Stóra málið er þó það að ástæða er til að fagna því að nú sé verið að huga að meiri samræmingu í því skyni að auðvelda (Forseti hringir.) þeim sem þurfa að kynna sér málin hjá fjármálafyrirtækjunum að gera það með samræmdum hætti þannig að þeir geti borið saman samanburðarhæfar tölur milli einstakra fyrirtækja og stofnana.