Auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:49:20 (6808)

2001-04-25 14:49:20# 126. lþ. 112.4 fundur 593. mál: #A auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Vatnsorka er sú náttúruauðlind Íslendinga sem fyrst voru settar um skýrar lagareglur með vatnalögum frá 1923. Þar var mótuð sú regla að réttur til nýtingar vatnsorku fylgi eign á landi. En eftir að þjóðlendulögin voru sett er þó ljóst að mikill hluti vatnsorku landsins er í þjóðareign því að auk vatnsorku sem fyrirfinnst í þjóðlendum á ríkið þá vatnsorku sem tilheyrir jarðeignum ríkisins og óbeint þau vatnsréttindi sem orkufyrirtæki í eigu ríkisins hafa eignast.

Líkindi benda til þess að allt að 2/3 hlutum vatnsaflsins séu í eigu ríkisins, sveitarfélaga og opinberra orkufyrirtækja. Lengst af hafa þessi orkufyrirtæki ekki verið rekin með arðsemiskröfu en þegar samkeppni kemst á, ef frv. til nýrra raforkulaga verður að lögum, verður þar á breyting. Jafnframt má búast við breytingum á eignarhaldi fyrirtækjanna í framtíðinni, svo og það að fleiri munu koma að raforkuframleiðslu en opinberir aðilar og jafnvel einnig fleiri en Íslendingar sjálfir.

Herra forseti. Því er mikilvægt að marka stefnu sem tryggi að þjóðin njóti eðlilegs arðs af þessum auðlindum sínum, bæði þeim sem nú þegar eru nýttar og hinum sem enn eru óbeislaðar. Auðlindanefnd taldi það í samræmi við almenna stefnumótun sína að tryggja þyrfti að þjóðin nyti í framtíðinni eðlilegrar hlutdeildar í þeirri auðlindarentu sem nýting vatnsafls í eigu þjóðarinnar skapaði og taldi nefndin í áliti sínu að það yrði best tryggt með sölu vatnsréttinda í þjóðareign á markaði eða með uppboðum. Ég hef því lagt eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. iðnrh.:

,,Hefur verið litið til þess við samningu frumvarps til nýrra raforkulaga hvort og þá hvernig auðlindagjald verður í framtíðinni innheimt af vatnsafli í þjóðlendum?``

Þetta hefði, herra forseti, allt eins getað verið vatnsafli í þjóðareign.

Þegar þessi fyrirspurn var lögð fram hafði ráðherra ekki kynnt frv. til nýrra raforkulaga. Nú hefur ráðherra kynnt það frv. opinberlega. Við þingmenn höfum reyndar ekki fengið að sjá frv. enn þá. En það hlýtur að verða mjög fljótlega. Alla vega spyr ég ráðherra hvort til þess hafi verið litið við samningu frv. að þjóðin fengi eðlilegan arð af þessum auðlindum sínum í framtíðinni.