Auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:54:19 (6810)

2001-04-25 14:54:19# 126. lþ. 112.4 fundur 593. mál: #A auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:54]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mér fannst þetta býsna óljós svör sem hér komu. Ég verð að segja alveg eins og er að maður getur ekki annað en kvartað yfir því að mál eins og það sem hér ber á góma í sambandi við nýtingu raforku í landinu skuli ekki enn vera komið fyrir sjónir þingmanna. Hæstv. ráðherra er búin að láta ýmislegt koma fram úr þessu máli í fjölmiðlum að undanförnu en þingmenn hafa ekki fengið að skoða það sem hér á að verða að lögum eða fara í hendur þingmanna. Mér finnst að það ætti að vera regla þegar ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar eru tilbúnir með sín mál og svo tilbúnir að þeir setja það í fjölmiðla, þá komi þeir þeim upplýsingum til þingmanna um leið þannig að þeir geti verið færir um að taka þátt í umræðum. Það vantar auðvitað sárlega stefnumörkun í því máli sem hér er spurt eftir frá hendi ríkisins og hér hafa menn verið á sífelldum flótta undan þeim endapunkti sem hlýtur að verða, þ.e. að auðvitað verður ríkið að fá fullt verð fyrir allt sem það á.