Auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:59:06 (6813)

2001-04-25 14:59:06# 126. lþ. 112.4 fundur 593. mál: #A auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það að vissu leyti með hv. þingmönnum að staðan er erfið þegar mál eru komin eins mikið í umræðu og raun ber vitni með það frv. sem hér um ræðir og þeir hafa ekki fengið að sjá málið. Engu að síður eru mál annaðhvort á dagskrá á hv. Alþingi eða ekki og þetta frv. er ekki komið á dagskrá. Þess vegna tel ég mjög erfitt að fjalla um það á hv. Alþingi. Hins vegar vonast ég til þess að það muni líta dagsins ljóst mjög fljótt og þá verður auðveldara um vik.

Hvort innheimta skuli auðlindagjald almennt eða ekki er náttúrlega stór spurning og hápólitísk spurning og vel getur verið að ekki þurfi að gilda það sama um alla þætti. En ég held að þarna sé ágreiningur jafnvel á milli stjórnmálaflokka og í sjálfu sér er það ekki nema eðlilegt.

En um þá leið sem hv. þm. og fyrirspyrjandi mælti sérstaklega með, þ.e. uppboðsleiðinni, þá er það eins og kom fram í mínu máli hér í upphafi ekki sú leið sem farin er í frv., heldur leyfisveitingaleiðin. Teljum við það einfaldlega eftir vel ígrundaða yfirferð á málinu í heild að það sé sú leið sem sé æskilegri og í miklu betra samræmi við það sem við höfum almennt tamið okkur hér í vinnubrögðum sem varða auðlindir okkar og ekki síður þegar um vatnsorkuna og þá auðlind er að ræða.