Námsstyrkir

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:11:26 (6817)

2001-04-25 15:11:26# 126. lþ. 112.5 fundur 583. mál: #A námsstyrkir# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. menntmrh. áðan að með þeim fjárveitingum sem hafa komið tvö síðustu ár væri því markmiði byggðaáætlunar náð, eins og hæstv. ráðherra komst að orði. Ég vil mótmæla þessari fullyrðingu og segja að enn þá er langt í land. Nýleg reglugerð sem hæstv. menntmrh. gaf út hefur fjölgað nemendum og þar af leiðandi hafa þær peningaupphæðir sem hafa komið nýjar inn í þetta ekki dugað til að standa undir því.

Ég minni einnig á að í svokallaðri byggðanefnd forsrh., sem skipuð var í sambandi við kjördæmabreytinguna, sem var þverpólitísk nefnd, var nákvæmlega sett niður hvernig ætti að ná settu marki. Samkvæmt orðum hæstv. forsrh. hér á hinu háa Alþingi voru það tillögur sem átti að fara eftir en ekki einhverjar gulrætur fyrir stjórnarþingmenn meðan væri verið að troða því í gegn að breyta kjördæmaskipuninni.