Uppbygging tæknináms á háskólastigi

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:22:22 (6823)

2001-04-25 15:22:22# 126. lþ. 112.6 fundur 595. mál: #A uppbygging tæknináms á háskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt að geta þess hverjir voru í undirbúningsfélagi um Tækniháskóla Íslands. Þar voru fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum iðnaðarins, Tæknifræðingafélagi Íslands og Iðntæknistofnun. Að þessu komu ýmsir aðilar sem fengu mjög rúman tíma til að fjalla um málið og kynna sér alla þætti þess. Síðan þurfti að komast að niðurstöðu og hún birtist í yfirlýsingu sem undirrituð var, fyrir hönd undirbúningsfélags um stofnun tækniháskóla annars vegar og menntmrn. hins vegar, 12. febrúar 2001. Þar segir:

,,Menntamálaráðuneytið og undirbúningsfélag um stofnun og rekstur tækniháskóla hafa um alllangt skeið átt viðræður um möguleika á því að stofna og reka nýjan tækniháskóla, m.a. á grunni Tækniskóla Íslands.

Viðræðurnar hafa verið víðtækar og málefnalegar en ekki hefur tekist að finna sameiginlegan grundvöll varðandi fjármögnun tækniháskólans sem báðir aðilar geta sætt sig við. Í ljósi þess er talið rétt að slíta með formlegum hætti þessum viðræðum um málið.

Menntamálaráðuneytið og þeir, sem standa að undirbúningsfélaginu: Samtök iðnaðarins, Alþýðusamband Íslands, Tæknifræðingafélag Íslands og rannsóknastofnanir atvinnuveganna, eru eftir sem áður sammála um að nauðsynlegt sé að efla verk- og tæknimenntun sem hafi sterk tengsl við atvinnulífið. Aðilar munu vinna áfram að þessu markmiði.``

Síðan er þess getið að þessi yfirlýsing sé gefin í tveimur samhljóða eintökum.

Það er of mikil einföldun hjá hv. þm. að líta þannig á að reiknilíkan hafi staðið þessu máli fyrir þrifum. Þar komu til aðrir þættir. Hugmyndir um það hvernig ætti m.a. að fjármagna þróunarkostnað áður en viðsemjendur ráðuneytisins tækju að sér rekstur skólans komu einnig til álita í þessu. Eins kom upp spurningin um það, í þeim hópi sem stóð að undirbúningsfélaginu, hvað þeir aðilar væru sjálfir reiðubúnir til að leggja mikið af mörkum vegna þátttöku sinnar í þessu verkefni. Það er því ekki rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að gera því skóna að spurningin um svonefnt reiknilíkan hafi þarna ráðið úrslitum. Það voru fjárhagslegir þættir í mun stærra samhengi en því sem lýtur að reiknilíkaninu.

Nú má segja að tvennt blasi við. Það er spurningin um hvort leggja eigi fram á hinu háa Alþingi frv. til laga um Tækniháskóla Íslands, sem verði ríkisrekinn skóli eins og Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri, eða er áfram vilji til þess hjá aðilum í atvinnulífinu að koma að þessari starfsemi og taka þátt í henni í samvinnu við ríkisvaldið að færa þetta nám á háskólastig.

Ég hef verið talsmaður þess, það er rétt hjá hv. þm., að stuðla að samstarfi við atvinnulífið um þetta verkefni. Ef menn líta á forsögu málsins og þá aðila sem koma að stjórn skólans núna liggur beint við að velta fyrir sér öllum kostum í því efni. Einnig er það í góðu samræmi við þá stefnu sem hér hefur verið mörkuð varðandi starfsnám og verknám að það skuli vera samstarfsverkefni atvinnulífs og ríkisvaldsins.

Ég sé ekki annað en að þeir skólar sem nú eru reknir með einkaskólafyrirkomulagi á háskólastigi dafni hér vel. Þeir laða að sér nemendur. Nemendur hafa áhuga á því að stunda þar nám. Ég sé ekkert sem mælir gegn því að einkaskóli starfi einnig og bjóði upp á nám á borð við það sem nú er í boði í Tækniskóla Íslands.

Þessir kostir verða nú skoðaðir til hlítar. Úr því sem komið er verður að sjálfsögðu ekki lagt fram frv. á Alþingi um þetta mál á þessu vori. Við munum fara yfir málið. Ég veit að það er áhugi hjá ýmsum í atvinnulífinu fyrir því að koma að þessu verkefni. Þetta er spennandi verkefni og ég held að þegar upp verður staðið þá muni það ekki stranda á reiknilíkani hvort menn vilja koma að þessum skólarekstri eða ekki.