Uppbygging tæknináms á háskólastigi

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:30:58 (6826)

2001-04-25 15:30:58# 126. lþ. 112.6 fundur 595. mál: #A uppbygging tæknináms á háskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef litlu við fyrra svar mitt að bæta.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að langur tími var gefinn til viðræðna við undirbúningsfélagið. Menn gætu helst gagnrýnt mig fyrir að hafa gefið þessum aðilum svona langan tíma til þess að velta málinu fyrir sér. Þegar litið er til baka og menn sjá hver niðurstaðan var þá hefði e.t.v. verið skynsamlegra að ganga til þessa verks fyrr að ljúka þessum viðræðum. Menn geta eins og oft er verið vitrir eftir á og sagt að sjá hefði mátt fyrr í ferlinu að í raun og veru var líklega aldrei við því að búast að þessir aðilar gætu tekið að sér að reka þennan skóla hvað sem reiknilíkaninu líður, því reiknilíkaninu hefur nú ekki verið beitt á skólann eins og hv. þm. vék að. Það hefur ekki verið notað gagnvart þessum skóla og þess vegna hefur ekki reynt á það.

Hins vegar verða menn líka þegar þeir ræða um skólann að líta til þess að hann er tækniskóli og vissulega er það mikil vigt innan skólans, en þó kannski ekki aðalsmerki skólans núna þegar litið er til þeirra nemenda sem hann er að kalla á.

Menn verða líka að vera raunsæir í því þegar þeir skoða skólann hvaða áherslur eru helstar í náminu með hliðsjón af þeim nemendum sem sækja inn í skólann. Þá kemur í ljós að í þessum skóla eins og í öðrum fjórum ef ekki fimm skólum í landinu virðist það vera rekstrarfræði og viðskiptafræði sem kallar á flesta nemendur.

Þar sem samkeppnin er mest á milli háskóla í námsframboði þar er nemendafjöldinn einnig mestur. Þetta er umhugsunarefni og vert að velta því fyrir sér þegar menn skoða hvað er um að ræða.