Fjöldi nemenda í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:33:20 (6827)

2001-04-25 15:33:20# 126. lþ. 112.7 fundur 607. mál: #A fjöldi nemenda í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Segja má að þetta mál komi nokkuð að því máli sem hæstv. menntmrh. ræddi um, stöðu menntunar varðandi tækniskóla, þ.e. starfsnámsskólana.

Það verður að segjast eins og er að það gleður auðvitað augað þegar skólar hefja starfsemi á haustin að sjá hið kappsfulla unga fólk leggja upp til náms mót framtíðinni. Þó neita ég því ekki að ég hef haft það á tilfinningunni að bóknáminu hafi hér á landi verið gert nokkuð hærra undir höfði en starfsnáminu.

Oft hafa þær fullyrðingar heyrst og þá jafnan verið látið liggja að því að starfsnámið sé margfalt kostnaðarsamara en bóknámið. Það er m.a. þess vegna sem ég ber fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntmrh.:

1. Hve stór hluti nemenda úr grunnskóla skráir sig til náms í framhaldsskóla?

2. Hve margir þeirra (í hundraðshlutum eftir menntabraut) velja:

a. bóknám,

b. starfsnám?

3. Hve stór hluti nemenda hættir námi án formlegrar útskriftar af viðurkenndri námsbraut?

4. Hverjar eru sambærilegar tölur annars staðar á Norðurlöndum?