Fjöldi nemenda í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:34:50 (6828)

2001-04-25 15:34:50# 126. lþ. 112.7 fundur 607. mál: #A fjöldi nemenda í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að vekja máls á þessum atriðum því hér er um mikilvæg málefni að ræða sem við getum talað lengi um hér í þingsalnum en höfum kannski ekki svör við ef við viljum breyta, hvernig við getum breytt þeirri þróun sem við stöndum frammi fyrir og höfum staðið frammi fyrir hér á landi um nokkurt árabil.

Fyrst er spurt: Hve stór hluti nemenda úr grunnskóla skráir sig til náms í framhaldsskóla?

Svarið er: Árið 1999 skráðu 89% grunnskólanemenda sig til náms í framhaldsskóla að loknu námi í grunnskóla. Sama hlutfall nemenda skráði sig í framhaldsskóla á árunum 1996, 1997 og 1998. Endanlegar tölur fyrir árið 2000 liggja ekki fyrir.

Ég vil geta þess núna að við erum í fyrsta sinn núna í vor að framkvæma samræmd próf úr grunnskóla með þeim hætti að nemendur hafa val um hvort þeir taka prófið eða ekki. Eins og þið hafið séð í fréttum þá innrita 92% sig í þá námsgrein sem minnst er sótt, þ.e. í dönsku, upp í 96% sem innrita sig í próf í íslensku. Það virðist því vera að grunnskólanemendur almennt hafi þá afstöðu að það beri að taka þessi próf til að hafa alla möguleika opna þegar þeir koma upp á framhaldsskólastigið.

Þá er spurt: Hve margir þeirra nemenda í hundraðshlutum eftir menntabraut velja: a) bóknám, b) starfsnám?

Af öllum nemendum skráðum í dagskóla í framhaldsskólum haustið 1999, voru 70% nemenda í bók- og listnámi. Í starfsnámi voru 30% nemenda. Í skiptingunni er miðað við að til bóknáms teljist almennar brautir, málabrautir, uppeldis- og íþróttabrautir, félagsfræðibrautir, hagfræðibrautir og raungreinabrautir. En til starfsnáms iðn- og tæknibrautir, búsýslubrautir, matvælabrautir, viðskiptabrautir, þjónustuiðnir og heilsubrautir. Endanlegar tölur fyrir árið 2000 liggja ekki fyrir.

Sé miðað við námsval 16 ára nemenda, sem skráðu sig til náms í framhaldsskóla haustið 1999, er myndin önnur. Tæp 79% nemendanna voru skráðir í bóknám eða listnám. Rúm 21% voru skráð í starfsnám, þar af tæp 7% í löggiltar iðngreinar. En endanlegar tölur fyrir árið 2000 liggja ekki fyrir.

Þá er spurt: Hve stór hluti nemenda hættir námi án formlegrar útskriftar af viðurkenndri námsbraut?

Samkvæmt ritinu Education at a Glance árið 2000, sem OECD gefur út, var útskriftarhlutfall framhaldsskólanema á Íslandi 92% árið 1998 og var með því hæsta innan OECD-ríkja en meðaltal þeirra var þá 79%. Á það ber að líta að þetta háa hlutfall felur í sér útskriftir allra aldurshópa Íslendinga. En ljóst er að íslenskir nemendur ljúka í mörgum tilvikum framhaldsskólanámi sínu síðar en nemendur í öðrum löndum. Sveigjanleiki skólakerfisins gerir þeim kleift að gera hlé á námi sínu um tíma eða stunda vinnu með námi.

Í könnun sem Hagstofa Íslands gerði að beiðni menntmrn. á brottfalli nemenda úr framhaldsskólum milli áranna 1998 og 1999 kom fram að 24% nemenda komu ekki fram í nemenda- eða prófaskrá haustið eftir og er þá tekið tillit til þeirra sem lokið höfðu námi. Athuga þarf að einungis er um eina könnun milli tveggja ára að ræða og að mjög líklegt er að stór hluti þeirra 24% nemenda, sem fyrr voru nefndir, skili sér aftur í skóla og eigi eftir að ljúka námi.

Þá er spurt: Hverjar eru sambærilegar tölur annars staðar á Norðurlöndunum?

Samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir annars staðar á Norðurlöndum innrituðust árið 1997 90--98% nemenda í framhaldsskóla að loknu grunnskólanámi, lægst í Finnlandi, en hæst í Svíþjóð. Sama ár var hlutfallstala framhaldsskólanemenda á Norðurlöndunum á bilinu 41--47% í bóknámi og 50--59% í starfsnámi.

Á þessu ári voru tölur fyrir Ísland 67% í bóknámi og 33% í starfsnámi. Í aldurshópnum 21 árs höfðu 68--88% lokið námi úr framhaldsskóla í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi en 53% á Íslandi. Viðmiðunarár hér er 1996.