Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 11:32:37 (6854)

2001-04-26 11:32:37# 126. lþ. 113.3 fundur 481. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (samvinnufélög) frv. 30/2001, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[11:32]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt en frv. þetta fylgir þeim málum sem hafa verið rædd á undan, þ.e. um réttindi samvinnufélaga til þess að breytast í hlutafélög.

Meginefni þess frv. sem hér er lagt fram er að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt á þann veg að það valdi ekki skattaútlátum fyrir félagsmenn samvinnufélaga við að ákvörðun sé tekin um að rekstur þeirra verði í hlutafélagsformi. Það er afar eðlilegt að formbreyting ein og sér leiði ekki til skattgreiðslna af hálfu eigenda samvinnufélaganna.

Meiri hluti nefndarinnar gerir tvær brtt. sem koma fram á þskj. 943. Í fyrsta lagi við 1. gr. frv.:

,,Á eftir orðunum ,,A-deild stofnsjóðs samvinnufélaga`` komi: eða samvinnuhlutabréf sem félagsaðilum eru afhent við slíka hækkun séreignarhluta í samvinnufélagi.``

Í öðru lagi við 4. gr. frv.:

,,Sé samvinnufélagi skipt þannig að fleiri en eitt samvinnufélag eða hlutafélag taki við eignum og skuldum frá félaginu skulu ákvæði þessarar málsgreinar gilda um slíka skiptingu.`` --- Þetta er endurorðun á 1. mgr. 4. gr. frv. eða fyrri efnismálslið en hefur í sjálfu sér ekki mikla efnislega þýðingu.

Virðulegi forseti. Ég tel einboðið að þetta mál gangi í gegn og verði samþykkt á hinu háa Alþingi. Það er alls ekki eðlilegt að formbreyting á fyrirtæki úr einu rekstrarformi í annað hafi í för með sér að eigendur viðkomandi fyrirtækis þurfi að greiða tekjuskatt sérstaklega vegna þess.