Rafrænar undirskriftir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 11:43:03 (6858)

2001-04-26 11:43:03# 126. lþ. 113.4 fundur 524. mál: #A rafrænar undirskriftir# frv. 28/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[11:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. um rafrænar undirskriftir. Það er mikið framfaramál að festa það í lög en í þessu frv. er kveðið á um rafrænar undirskriftir og réttaráhrif þeirra auk þess sem settar eru reglur um vottunaraðila slíkra undirskrifta og eftirlit með þeim. Ákvæðum frv. er ætlað að stuðla að öryggi í rafrænum viðskiptum og öðrum samskiptum í opnum kerfum svo sem á netinu.

Samstaða skapaðist um það í nefndinni að fylgja þessu frv. úr hlaði. Helst var rætt um hvernig gjaldtöku yrði háttað af hálfu þeirra sem annast þetta eftirlit eða gefa út þessi vottorð, þ.e. vottunaraðilar, og samkvæmt frv. eins og það lá fyrir fyrst var gert ráð fyrir því að þeir greiddu til Löggildingarstofu, sem hafi umsjón og eftirlit með rafrænum undirskriftum, 1 millj. kr. að lágmarki og síðan 200 kr. fyrir hvert kort sem út yrði gefið.

Það var samdóma álit þeirra sem komu til nefndarinnar að óheppilegt væri að leggja 200 kr. gjald á hvert kort og reyndar var það svolítil lífsreynsla að heyra fulltrúa fjármálalífsins koma til fundar hjá nefndinni og kveinka sér undan 200 kr. sem þeir töldu afskaplega hátt og skapa þeim mikla erfiðleika en á sama tíma hafa ekki heyrst miklar áhyggjur eða athugasemdir frá sömu aðilum þegar þeir hafa komið til þingsins og um hefur verið að tefla önnur gjöld sem eiga að standa undir opinberri þjónustu. Vísa ég þar í margvíslega sjúklingaskatta og álögur sem settar eru á sjúklinga.

En það brá náttúrlega svo við að ríkisstjórnin hafði mikinn skilning á þessum áhyggjum fjármálalífsins, þeim íþyngjandi kvöðum og álögum sem verið væri að setja á fjármálalífið með þessum 200 kr. sem eru eitthvað svipað og menn greiða fyrir ferð með strætisvagni. En það varð niðurstaðan engu að síður að þetta var fellt niður --- engu að síður segi ég því að vegna þessara mótmæla og vegna þessa skilnings í ráðuneytinu var ákveðið að hverfa frá þessu 200 kr. gjaldi en halda sig við milljón króna markið, þ.e. að hver vottunaraðili skuli að lágmarki greiða til ríkisins 1 millj. kr. og það er hugsað til að standa straum af kostnaði við það eftirlit sem verður á vegum Löggildingarstofunnar.

Hv. frsm., formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, hefur þegar gert grein fyrir meginefni frv. og þeim brtt. sem efh.- og viðskn. leggur til en ég lýsi sem sagt yfir stuðningi við frv. og tel það horfa til mikilla framfara.